Erlent

Verstu náttúruhamfarir sögunnar

Náttúruhamfarirnar í Suðaustur-Asíu eru þær verstu í sögunni að mati yfirmanns neyðarhjálpar Sameinuðu þjóðanna. Óttast er að farsóttir blossi upp á svæðinu þar sem rotnandi lík og hræ liggja í flóðavatninu. Ástandið á flóðasvæðunum gæti enn versnað breiðist far- og drepsóttir út. Tugir þúsunda fórust og fjöldi líka, sem og hræ dýra, liggur á víðavangi, jafnvel á kafi í vatni og rotnar. Víða voru fyrir drulla og skítur sem blandast nú flóðavatninu sem sum staðar hefur komist í vatnsból. Rétt eins og þegar monsúnregn veldur flóðum er hætta á kóleru og öðrum pestum sem geta reynst banvænar. Heilbrigðisstofnanir eru hvergi nærri í stakk búnar til að bregðast við vandanum og eru jafnvel í rúst eftir flóðin. Því er ástandið mjög bágborið. Þó að björgunarmenn og hersveitir keppist við að safna líkum og urða eða koma fyrir með öðrum hætti, hafa þeir ekki undan. Hjálparstofnanir reyna að koma lyfjum og drykkjarvatni til fólks en eiga í kapphlaupi við tímann. Það er ekki síst af þessum sökum sem Jan Egaland, yfirmaður neyðarhjálparstarfs Sameinuðu þjóðanna, segir þetta að líkindum verstu náttúruhamfarir í sögunni þar sem þær bitnuðu á þéttbyggðum svæðum við ströndina sem voru alls ekki undir slíkar hamfarir búin.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×