Erlent

Ekki vitað um 40 Íslendinga

Ekki er vitað um afdrif um fjörtíu Íslendinga sem voru á hamfarasvæðinu, af þeim sextíu og fimm sem staðfest er að eru þar um þessar mundir. Utanríkisráðuneytið hefur starfrækt neyðarvakt í dag þar sem upplýsingum er safnað og Íslendingum komið til aðstoðar ef með þarf. Flóðbylgjurnar fóru yfir marga vinsæla ferðamannastaði í Asíu, þar sem gera má ráð fyrir að fjöldi Íslendinga hafist við. Ungt par á flóðasvæðinu við Phuket eyju í Tælandi var statt á ströndinni og horfði á flóðbylgjurnar nálgast með ógnarhraða. Voru þau í bráðri lífshættu og hlupu upp á hæsta punkt eyjunnar. Ekki hefur náðst símasamband við þau síðan fyrir hádegi, en þá töldu þau sig úr hættu. Margrét Þorvaldsdóttir er stödd ásamt fjölskyldu sinni á sömu slóðum. Af hreinni tilviljun voru þau ekki niðri á strönd þegar flóðbylgjan reið yfir, en dvelja nú á hóteli sínu þar sem vatnið fyllir nánast fyrstu hæðina. Margrét segir fólk mjög hrætt og vatn sé út um allt. Varað hafi verið við að meira gæti fylgt í kjölfarið. Margrét segir að ágætlega fari um fjölskylduna. Starfsfólk Atlanta og Flugleiða á Maldvieyjum, Indónesíu og Malasíu er heilt á húfi. Staðfest hefur verið að ekkert amar að íslenskum starfsmönnum utanríkisþjónustunnar á Sri Lanka, þar sem þúsundir hafa látist. Strax í morgun var sett upp neyðarvakt í utanríkisráðuneytinu vegna flóðanna, til að safna upplýsingum um Íslendinga á hamfarasvæðinu og koma þeim til aðstoðar. Pétur Ásgeirsson, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneytinu, segist ekki vita nákvæmlega hve margir Íslendingar séu á svæðinu, en ljóst sé að engar skipulagðar ferðir hafi verið farnar á þetta svæði undanfarið, en hins vegar séu þarna einhverjir á eigin vegum og verið sé að reyna að finna út hve margir þeir séu. Pétur segir markmiðið fyrst og fremst að ræðismenn Íslands geti stuðlað að því að hjálp berist.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×