Erlent

Friðarviðræður komnar í strand

Friðarviðræður stjórnvalda og uppreisnarmanna í Darfur-héraði í Súdan eru komnar í strand. Á aðra milljón manna hefur misst heimili sín í héraðinu og Alþjóða Rauði krossinn óttast að með sama áframhaldi verði þrjár milljónir manna hjálparþurfi á næsta ári. Fréttamaður Stöðvar 2 var á ferðalagi í Darfur-héraði. Átökin í Darfur-héraði í norðvestur Súdan hafa nú staðið í tæp tvö ár. Þau snúast í stuttu máli um að blökkumenn í héraðinu hafa gert uppreisn gegn stjórnvöldum og stjórnarhernum vegna ofríkis araba og misskiptingu efnislegra gæða. Friðarviðræður stjórnvalda og uppreisnarmanna sigldu í strand í gær og Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segir tímabært fyrir samtökin að hugsa upp á nýtt hvernig taka beri á málum. Óeirðirnar í Darfur hófust fyrir tæpum tveimur árum í borginni Kutum. Stjórnarherinn hefur borgina enn á valdi sínu en rétt nokkra kílómetra fyrir utan hana heyrast reglulega skothvellir og bardagar. Dominik Stillhart, yfirmaður Alþjóða Rauða krossins í Súdan, segir að síðustu vikurnar hafi verið mikið um átök og erjur í Darfur og það geri allt hjálparstarf auðvitað erfiðara.  Síðan átökin hófust í febrúar í fyrra hafa uppreisnarmenn brennt yfir 400 þorp í Darfur og talið er að rúmlega hundrað þúsund manns hafi týnt lífi í átökunum. Hátt á aðra milljón manna hafa misst heimili sín og dvelja í flóttamannabúðum víðsvegar um héraðið og Alþjóða Rauði krossinn, sem heldur uppi víðtæku hjálparstarfi víðsvegar um héraðið, óttast að ástandið fari hraðversnandi á næstu vikum, takist ekki að stilla til friðar. Stillhart segir efnahagslífið hafa hrunið. „Hefðbundnar atvinnugreinar hafa orðið fyrir skakkaföllum og við gerum ráð fyrir að 2-3 milljónir manna þurfi á aðstoð að halda árið 2005,“ segir Stillhart. Í Hassahissa-flóttamannabúðunum búa hátt í 30 þúsund manns og hafa gert það frá því í sumar. Þetta er allt fólk sem kemur úr nærliggjandi þorpum sem lögð hafa verið í rúst vegna átakanna sem geisa í Darfur. Alls eru á milli 100 og 150 flóttamannabúðir í héraðinu sem er á stærð við Frakkland og hafast tugþúsundir manna við í stærstu búðunum. Þetta er fólk sem hefur misst allt sitt, þorp þeirra hafa verið brennd og þurrkuð af yfirborði jarðarinnar, konum hefur verið nauðgað og margir ástvinir þeirra drepnir. Engu að síður blasir við manni bros, jákvæðni og velvilji hvert sem litið er. Erland Linklater, yfirmaður Alþjóða Rauða krossins í Kutum, segir fólkið vera yndislegt. Það haldi kímnigáfunni í öllu mótlætinu og það sé hreint ótrúlegt. „Manni hlýnar um hjartaræturnar við að sjá hvernig það bregst við þeim aðstæðum sem það býr við,“ segir Linklater



Fleiri fréttir

Sjá meira


×