Erlent

Annan vill ekki fara til Darfur

Tilraunir Sameinuðu þjóðanna til að stilla til friðar í Darfur-héraði í Súdan hafa ekki skilað neinum árangri, segir Kofi Annan, framkvæmdastjóri samtakanna. Hann telur rétt að hugsa upp á nýtt hvernig taka beri á málum. Ástandið í Darfur-héraði í Súdan fer versnandi. Friðarviðræður stjórnvalda og uppreisnarmanna sigldu í strand í gær og verður ekki sest að samningaborði fyrr en í janúar. Í yfirlýsingu frá öðrum megin uppreisnarhópnum var áhyggjum lýst af því að stjórnvöld í Khartoum noti tækifærið og reyni að útrýma íbúum Darfur. Stjórnvöld segja aftur á móti að Ísraelsmenn sjái uppreisnarmönnum fyrir vopnum og að Þjóðverjar hafi skotið yfir leiðtoga þeirra skjólshúsi. Um tvær milljónir íbúa héraðsins hafa flúið heimili sín, þúsundur hafa fallið í átökum og þúsundir til viðbótar hafa látist úr sjúkdómum sem hægt hefði verið að lækna. Hjálparstofnanir eiga hins vegar erfitt um vik þar sem starfsmenn þeirra verða í sífellu fyrir árásum og neyðarbirgðum er rænt. Sum hjálparsamtök hafa kallað starfsfólk sitt heim þar sem ekki er hægt að tryggja öryggi þess. Á fundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna kom til tals að Kofi Annan, framkvæmdastjóri samtakanna, héldi til Darfur líkt og hann gerði síðasta sumar til þess að reyna að tryggja öryggi og aðgang hjálparstarfsmanna. Annan vísaði þeim hugmyndum hins vegar á bug og sagði að líkindum tímabært fyrir Sameinuðu þjóðirnar að hugsa upp á nýtt aðferðafræði sína í Súdan. Horfast þyrfti í augu við að þær aðferðir, sem beitt hefði verið, hefðu ekki skilað tilætluðum árangri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×