Erlent

Kvótar ESB minnkaðir

Fiskveiðikvótar Evrópusambandsins verða minnkaðir á næsta ári en ekkert verður úr algjöru þorskveiðibanni á stórum svæðum eins og vísindamenn höfðu lagt til, í þeim tilgangi að koma í veg fyrir hrun stofnsins. Þessi niðurstaða náðist eftir mikið þjark hjá ráðherrum sambandsríkjanna en Alþjóða hafrannsóknaráðið lagði til í haust að þorskveiðar yrðu alveg bannaðar í Norðursjó í eitt ár eða lengur til að byggja upp stofninn. Ráðherrarnir höfnuðu líka hugmyndum um að loka alveg ákveðnum veiðisvæðum og tóku í stað þess upp takmarkað veiðibann á viðkvæmum svæðum. Fiskifræðingar hafa varað við því að stofnar margra helstu tegunda séu sums staðar orðnir svo litlir að hætta sé á að þorskur, lýsingur og koli deyi út. Skoskir fiskimenn fagna því að ekkert varð úr þorskveiðibanni í Norðursjó sem þeir segja að hefði riðið mörgum útgerðum að fullu. Íslenskir fiskútflytjendur geta sjálfsagt fagnað líka því sumir þeirra hafa bent á að erfitt hefði orðið að selja þorsk í Bretlandi ef veiðibann í Norðursjó hefði verið samþykkt því almenningur hefði þá sjálfsagt álitið allan þorsk í útrýmingarhættu, sama hvaðan hann kæmi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×