Innlent

Ekki verið að senda skilaboð

Getgátur eru uppi um að landvistarboð íslenskra stjórnvalda til handa Fischer tengist að einhverju leyti samningaviðræðum Íslands og Bandaríkjanna um framtíð Varnarliðsins. Þór Whitehead sagnfræðingur segir að vissulega geti þetta frumkvæði Íslendinga valdið pirringi í Washington en það sé fullkomlega fráleitt að lesa einhverjar samsæriskenningar út úr þessu máli. Það er aðeins ríflega mánuður síðan Davíð Oddsson, utanríkisráðherra, hitti fráfarandi starfsbróður sinn í Washington til að reyna að koma skriði á samningaviðræðurnar um orustuþoturnar fjórar á Keflavíkurflugvelli. Á þeim fundi var ákveðið að embættismenn landanna myndu halda áfram að ræða málið nú í byrjun næsta mánaðar. Í þessu ljósi virðist tímasetningin á því að bjóða Bobby Fischer landvistaleyfi á Íslandi í besta falli verulega óskynsamleg og líkleg til að reita bandarísk stjórnvöld til reiði í miðjum viðkvæmum samningaviðræðum. Eða hvað? Hafa íslensk stjórnvöld kannski í hyggju að nota þetta mál einhvern veginn sem skiptimynt í samningaviðræðunum? Er verið að senda bandarískum stjórnvöldum skilaboð um að litla Ísland geti gert þeim skráveifu? Þór Whitehead, prófessor í sagnfræði, segir allar slíkar túlkanir fullkomlega fráleitar söguskoðanir. Hann segir Davíð Oddsson áður hafa sent Bandaríkjastjórn skýr skilaboð þess eðlis að hún geti alls ekki skipað hér varnarmálum einhliða. Hann segist því ekkert sérstakt lesa út úr björgunaraðgerðinni gagnvart Fischer. Þór segist ekki telja að Fischer málið hafi nokkur áhrif á samskipti landanna tveggja þegar til lengri tíma er litið. Það kunni að vera að þetta skapi ákveðinn pirring, en þetta hafi engin áhrif á varnarmálin, sem séu ákveðin út frá hagsmunum en ekki tilfinningum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×