Erlent

Óþekktir aðilar kaupa Yukos

Áður óþekkt leppfyrirtæki keypti í gær meirihlutann í einu stærsta olíufyrirtæki heims, rússneska olíurisanum Yukos. Flest þykir benda til þess að rússnesk stjórnvöld séu með puttana í málinu. Kaupin í gær eru sveipuð mikilli dulúð enda var hæstbjóðandinn fyrirtæki sem enginn hafði áður heyrt minnst á, Baikal Finance Group, sem er skráð með höfuðstöðvar í húsnæði úti á landi sem hýsir farsímasölu og matvöruverslun. Olíumarkaðurinn hefur beinlínis iðað af kjaftasögum í dag enda skipta þessi kaup miklu máli. Yukos er með um tuttugu prósent markaðshlutdeild á rússneska olíumarkaðinum og framleiðir meiri olíu en olíuríkið Qatar. Flestir hallast að því að rússnesk stjórnvöld séu að einhverju leyti á bak við þetta tilboð og tilgangurinn sé að sniðganga dómsúrskurð sem tímabundið hamlaði því að hægt væri að nota erlent fé til að fjármagna kaupin. Það vita flestir að Pútín gengur með þann draum að búa til eitt risastórt ríkisrekið orkufyrirtæki með því að skella Gazprom og Yukos saman í eina sæng. Sérfræðingar segja að kaupin séu hluti af áformum ríkisstjórnarinnar um að ná fyrirtækinu undir Gazprom. Annar möguleiki sé svo að fyrirtækið verði brotið upp, en hvað sem öðru líði muni Baikal ekki geta staðið undir kaupunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×