Erlent

Repúblíkanar stígi til vinstri

Eitt vakurt vinstra hopp er það sem Repúblíkanaflokkurinn þarf á að halda, að mati Arnolds Schwarzeneggers, ríkisstjóra Kaliforníu. Þannig gæti flokkurinn aukið fylgi sitt. Þetta sagði hann í viðtali við þýska dagblaðið Süddeutsche Zeitung um helgina. Schwarzenegger verður seint sagður mikill íhaldssmaður í öðru en fjármálum, því hann er töluvert til vinstri við stefnu Repúblíkanaflokksins í mörgum lykilmálum. Í viðtalinu sagði hann jafnframt tímabært að ræða stjórnarskrárbreytingu sem gerði þeim sem fæddir eru utan Bandaríkjanna kleift að bjóða sig fram til forseta. Hann vildi þó ekkert segja um hvort að hann myndi bjóða sig fram. Af stakri hógværð bætti hann því þó við að hann hefði vakið heimsathygli á líkamsrækt á sínum tíma, nánast fundið upp hasarmyndahugtakið og fyndist tímabært að gera eitthvað álíka í stjórnmálum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×