Erlent

Hættulegt liðagigtarlyf

Varað er við lyfinu Celebra, sem notað er við liðagigt, þar sem það eykur líkurnar á kransæðastílfu og heilablóðfalli. Landlæknir ráðleggur fólki sem notar lyfið að ræða við lækninn sinn. Bandaríska matvæla- og lyfjastofnunin ráðleggur læknum að vísa á önnur lyf en Celebra þar sem rannsókn leiddi í ljós aukna hættu á kransæðastíflu og heilablóðföllum meðal þeirra sem tóku lyfið. Stutt er síðan lyfjaframleiðandinn Merch varð að taka sambærilegt lyf, Vioxx, af markaði þar sem það hafði sömu áhrif. Pfizer, sem framleiðir Celebra, sem heitir Celebrex í Bandaríkjunum, ætlar hins vegar að halda áfram sölu lyfsins. Ekki eru allir sáttir við það. Talsmenn neytendasamtaka og eftirlitsshópa segja matvæla- og lyfjastofnunina fá hundruð milljóna dollara í framlög frá lyfjaframleiðendum árlega, sem hljóti að leiða til þess að stofnunin fari sér hægt og varlega þegar kemur að því að banna lyf - þó að réttast væri að gera það reynist lyfið hættulegt. Öldungardeildarþingmaðurinn Chuck Grassley segir að þess sé vænst að Lyfjaeftirlitið setji ekki lyf á markað sem ekki séu örugg. „Það er ekki hægt að gera málamiðlun um öryggi, sama hversu mikill þrýstingur er um að koma fleiri lyfjum á markað,“ segir Grassley. Hér á landi hafa Vioxx og Celebra skipt með sér markaðnum fyrir lyf sem kölluð hafa verið ný gigtarlyf, eða cox-2 lyf. Landlæknisembættið og Lyfjastofnun hafa undanfarna mánuði ráðlagt læknum að gæta sérstakrar varúðar varðandi varðandi þau cox-2 lyf sem eftir eru á markaði, einkum hjá fólki með hjarta- og æðasjúkdóma eða þeim sem eru í sérstökum áhættuhópi að fá slíka sjúkdóma og nota þau eingöngu ef fólk þolir ekki eldri lyf og er í áhættuhópi gagnvart magablæðingum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×