Erlent

Stjórnarmyndun enn í gangi

Hörðum höndum var unnið að því í alla nótt að ná samkomulagi um myndun þjóðstjórnar í Ísrael. Enn munu samningamenn sitja við samningaborðið til að reyna að finna lausn á því hvernig breyta má lögum á þann veg að Simon Peres geti orðið aðstoðarforsætisráðherra. Takist það er búist við því að formlega verði greint frá myndun nýrrar stjórnar í dag. Snurða hljóp á þráðinn í gær og því hafa viðræður haldið áfram. Megintilgangur þjóðstjórnarinnar verður að tryggja framgang áætlana um brotthvarf frá Gasa-ströndinni og hefur Peres lýst þeirri skoðun sinni að Verkamannaflokkurinn ætti ekki að setja nein skilyrði fyrir þátttöku í stjórninni. Ísraelsmenn greindu frá því í morgun að hundrað og sjötíu palestínskum föngum yrði sleppt úr fangelsum í Ísrael á næstunni. Einnig var hætt hernaðaraðgerðum í flóttamannabúðum á Gasa-ströndinni sem kostað hafa ellefu lífið undanfarna sólarhringa. George Bush, Bandaríkjaforseti, segist sannfærður um að sér takist að koma á friði á milli Ísraelsmanna og Palestínumanna á seinna kjörtímabili sínu sem forseti. Þetta sagði hann í viðtali við ísraelskt dagblað í gær þar sem hann lýsti því yfir að ráðamenn í Washington myndu eyða miklu púðri í að koma á friði í Mið-Austurlöndum á næstunni. Næsta ár væri mjög mikilvægt því þá ætti friður að komast á og Sharon, forsætisráðherra Ísraels, áttaði sig á því og mikilvægt væri að Palestínumenn gerðu það einnig. Bush sagðist hafa fulla trú á því að ný stjórn í Palestínu myndi skilja það að friður kæmist á við samningaborðið en ekki með sjálfsmorðsárásum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×