Erlent

Barni rænt úr móðurkviði

Ung kona í Bandaríkjunum var myrt á fimmtudaginn og ófæddu barni hennar rænt úr móðurkviði. Málið hefur vakið mikinn óhug í Bandaríkjunum, enda grimmdin nánast ólýsanleg. Yfirvöld telja að Lisa Montgomery hafi komið á heimili Bobbie Jo Stinnett á fimmtudaginn var undir því yfirskini að hún vildi kaupa af henni hund. Í staðinn réðst Lisa á Bobbie Jo, kyrkti hana, risti upp á henni kviðinn og hrifsaði þaðan barn sem Bobbie Jo hafði gengið með í átta mánuði. Móðir hennar fann hana í andarslitrunum nokkrum stundum síðar og þrátt fyrir tilraunir bráðaliða tókst ekki að bjarga lífi Bobbie Jo. Það þykir ótrúlegt að barnið fannst daginn eftir í Kansas, á heimili Lisu, í ágætis ástandi. Að sögn Todds Graves, saksóknara í Missouri, má Lisa búast við hámarksrefsingu við glæpnum sem er lífstíðarfangelsi. Dauðarefsing komi hins vegar einnig til greina. Rannsókn er enn í gangi en Lisa er eini sakborningurinn. Sjálf er hún tveggja barna móðir en missti nýlega barn undir kringumstæðum sem ekki liggja ljósar fyrir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×