Erlent

Leynifangelsi á Guantanamo

Bandaríska leyniþjónustan CIA heldur föngum í leynifangelsi í Guantanamo-herstöðinni á Kúbu. Þeir fangar njóta enn minni réttinda en aðrir fangar þar og óljóst er hvað fer fram í fangelsinu. Eins og kom fram hér á Vísi í gær heldur Washington Post því fram að leyniþjónustan hafi haldið föngum, sem taldir eru sérstaklega mikilvægir, í leynifangelsi í Guantanamo-herstöðinni á Kúbu. Leyniþjónustan lét byggja sérstaka leynideild innan fangelsisins á Kúbu á þessu ári. Er það sérstaklega girt af með gaddavír og flóðlýst. Flestir fangar í fangelsinu á Kúbu eru þar í haldi varnarmálaráðuneytisins og mega m.a. ræða við fulltrúa alþjóða Rauða krossins auk þess sem bandarískur dómstóll komst fyrr á þessu ári að þeirri niðurstöðu að þeir gætu kært meðferðina til dómstóla. Fangar í haldi leyniþjónustunnar njóta ekki þessara réttinda þar sem yfirvöld hafa sett um þá annars konar reglur og algjör leynd ríkir yfir því hverjir þeir eru. Því er ekkert vitað um hverjir eru í haldi leyniþjónustunnar eða hvað er gert við þá. Talið er að þetta séu menn sem hafa miklar upplýsingar um stjórnun al-Kaída, fjármál og svæðisbundna starfsemi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×