Erlent

Eiga hvergi skilið að vera öruggir

Osama bin Laden er á lífi, samkvæmt nýrri hljóðupptöku sem fram hefur komið. Þar segir hann að Bandaríkjamenn eigi hvergi skilið að vera öruggir í heiminum. Þrátt fyrir mikla leit hefur hvorki fundist tangur né tetur af bin Laden í þrjú ár. Á upptökunni heyrist rödd, sem talin er vera bin Ladens, blessa hóp Sádí-arabískra hryðjuverkamanna sem stóðu fyrir hryðjuverkum í Sádí-Arabíu í byrjun desember. Hann gagnrýnir stjórn Sádí-Arabíu harðlega fyrir að hneigjast í átt að Bandaríkjunum. Hann segir Bandaríkjamenn ekki geta vænst þess að vera öruggir á meðan þeir valdi eyðileggingu í heiminum. Þeir eigi ekki skilið að vera öruggir neins staðar. Síðast sendi bin Laden frá sér myndbandsupptöku í október, þar sem hann tók af allan vafa um þátt sinn í hryðjuverkunum 11. september. Rúmlega þrjú ár eru liðin síðan leitin að bin Laden hófst, og hvorki hefur fundist af honum tangur né tetur. Því er haldið fram að hann leynist í fjalllendinu á landamærum Afganistans og Pakistans. Perves Musharraf, forseti Pakistans, heldur því fram að Bandaríkjamenn hafi fækkað svo í herliði sínu í Afganistan að þar sé nú auðvelt að komast felast. Önnur lönd verði að leggja meira púður í að finna Bin Laden, og þá sérstaklega afgönsk yfirvöld.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×