Erlent

Hótaði að sprengja allt í loft upp

Gíslatökumaður hótaði í gærkvöld að sprengja rútu með sex gíslum innanborðs í loft upp ef yfirvöld yrðu ekki við kröfu hans um andvirði 85 milljóna króna í lausnargjald og tryggingu fyrir því að flogið yrði með hann og félaga til Rússlands. Þá höfðu þeir sleppt sautján af 23 farþegum sem þeir hnepptu í gíslingu fyrr um daginn. Gíslatökumennirnir tveir stigu um borð í rútuna í Aþenu, höfuðborg Grikklands, vopnaðir rifflum, snemma í gær og skutu nokkrum skotum í gegnum þak rútunnar. Bílstjóri rútunnar stöðvaði hana og náði að flýja ásamt miðasölumanni og einum farþeganna. Eftir voru 23 farþegar sem teknir voru í gíslingu. Talið er að gíslatökumennirnir séu Albanar sem eigi að baki glæpaferil í Grikklandi. Þeir skutu af og til að lögreglumönnum sem umkringdu rútuna, og slepptu farþegum reglulega fram eftir degi. Í gærkvöldi sagði annar gíslatökumannanna hins vegar að fleiri gíslum yrði ekki sleppt fyrr en yfirvöld yrðu við kröfu þeirra félaga. Hann gaf þeim frest til klukkan sex í morgun að íslenskum tíma til að greiða lausnargjaldið og koma honum og félaga sínum um borð í flugvél á leið til Rússlands. "Ég bíð til klukkan átta í fyrramálið, þegar bankarnir opna, og þeir færa mér bílstjóra og peninga. Ef þeir gera það ekki kveiki ég á þræðinum," sagði gíslatökumaðurinn í símaviðtali við Alter-sjónvarpsstöðina. Klukkan er sex hér á Íslandi þegar hún er átta í Grikklandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×