Erlent

Réttað yfir samherjum Saddams

Nokkrir af nánustu samstarfsmönnum Saddams Hussein, fyrrum einræðisherra Íraks, verða dregnir fyrir rétt í næstu viku, sagði Iyad Allawi, forsætisráðherra Íraks í gær. Mál fyrrum valdhafa Íraks verða tekin fyrir í sérstökum dómstóli sem tekur á ákærum gegn þeim um þjóðernishreinsanir, glæpi gegn mannkyni og stríðsglæpi. Sakborningarnir eiga yfir höfði sér dauðadóm verði þeir fundnir sekir. Þegar Saddam var handtekinn fyrir ári síðan létu sumir áhrifamenn að því liggja að stutt væri í að réttað yrði í máli hans og samverkamanna hans. Það hefur dregist mjög, einkum vegna erfiðleika við undirbúning málsins og skipun dómstóls. Þau vandamál eru nú að baki, að sögn Allawi. "Við höfum lokið undirbúningnum og tilnefnt dómara, ég get sagt með vissu að réttarhöldin hefjast í næstu viku og verður haldið áfram." Badiaa Aref Ezzat, lögmaður Tareq Aziz, fyrrum forsætisráðherra, gagnrýndi hversu snemma ætti að hefja réttarhöldin. "Það er ómögulegt að hefja réttarhöld í næstu viku," sagði Ezzat og sagði það taka mun lengri tíma að undirbúa málsvörn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×