Erlent

Stafræn bókasöfn að verða til

Öllum bókum nokkurra stærstu háskólabókasafna heims verður á næstunni komið á stafrænt form í samvinnu við leitarvélina Google sem ætlar að bjóða aðgang að efninu á Netinu. Það hefur löngum verið draumur frumherja í nethugsun að koma bókum á stafrænt form og veita ókeypis aðgang að þeim en hingað til hefur það hljómað eins og framtíðardraumar. En ekki lengur. Nokkrir stærstu rannsóknarháskólar Bandaríkjanna, þeirra á meðal Harvard og Stanford, Oxford-háskóli í Bretlandi og bókasafn New York borgar hafa tekið höndum saman um að lesa allar bækur safnanna inn í tölvur og bjóða aðgang að þeim á Netinu. Leitarvélin Google fjármagnar verkefnið og leggur til tæknikunnáttuna. Talið er að það taki allt að áratug að skanna allar bækurnar inn en bókasafnsfræðingur Stanford-háskóla telur að innan tveggja áratuga verði allt lesefni komið í stafræn bókasöfn á Netinu. Það eru fleiri sem róa öllum árum að sama marki. Á vegum eins stærsta bókasafns heims, bókasafns Bandaríkjaþings, hefur um hríð verið unnið að því að skanna inn valin verk og í gærkvöldi var gengið frá samkomulagi á milli þingbókasafnsins og leiðandi bókasafna í Bandaríkjunum, Kanada, Egyptalandi, Kína og Hollandi um að stofna almenningsbókasafn á Netinu, þar sem boðinn yrði aðgangur að allt að milljón titla. Þegar í apríl eiga sjötíuþúsund stafrænar bækur að vera í boði. Hjá Google telja menn raunhæft að skanna inn fimmtíu þúsund síður daglega innan mánaðar og að fjölga síðunum upp í hundrað þúsund fyrri helming næsta árs.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×