Sport

Eiður Smári og Margrét Lára valin

Eiður Smári Guðjohnsen og Margrét Lára Viðarsdóttir voru valin knattspyrnumenn ársins 2004 á samkomu Knattspyrnusambands Íslands sem haldin var í gær. Þetta er í fyrsta sinn sem KSÍ verðlaunar knattspyrnufólk með þessum hætti en yfir 200 einstaklingar víðs vegar úr íslenska knattspyrnuheiminum tóku þátt í kjörinu. Eiður Smári þótt bestur karlanna vegna þess árangurs sem hann hefur náð í einni erfiðustu deild heims í knattspyrnu en næstur honum var valinn Hermann Hreiðarsson. Í þriðja sæti hjá körlunum varð svo Heimir Guðjónsson, fyrirliði FH. "Þetta er mikill heiður enda standa að þessu vali fólk sem annaðhvort er eða hefur komið nálægt knattspyrnu gegnum tíðina," sagði Eiður Smári eftir að valið var kunngert. Hermann Hreiðarsson tók undir orð Eiðs og sagði allar slíkar viðurkenningar af hinu góða fyrir íþróttamenn. "Það skiptir engu máli við hvað viðkomandi starfar eða gerir, allt slíkt er tvímælalaust mikill heiður og af hinu góða." Hjá stúlkunum þótti Margrét Lára hafa staðið sig best eftir frábært tímabil með liði ÍBV og landsliðinu í ár en í öðru og þriðja sæti urðu þær Laufey Ólafsdóttir úr Val, og Olga Færseth hjá ÍBV. Margrét Lára var upp með sér. "Þetta er að sjálfsögðu frábært að hljóta viðurkenningu á borð við þessa og ýtir undir að ég haldi áfram að standa mig eins vel og ég get og án efa ein sú mesta viðurkenning sem ég get fengið ásamt því að vera valin í landsliðið. Fyrir alla þá sem eru reiðubúnir að leggja sig fram í þeim íþróttum sem þeir stunda er svona lagað staðfesting á að það er tekið eftir því sem vel er gert." Á sama tíma færði Knattspyrnusamband Íslands einnig SOS barnaþorpunum styrk að upphæð 500 þúsund krónum en það er í samræmi við stefnu Alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA og munu þeir peningar koma sér vel fyrir munaðarlaus börn í Úkraínu á næstu misserum. albert@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×