Erlent

Abbus næsta öruggur um sigur

Mahmoud Abbas, leiðtogi Frelsissamtaka Palestínu (PLO) og fyrrum forsætisráðherra heimastjórnar Palestínu, þykir næsta öruggur með sigur í forsetakosningum Palestínu eftir tæpan mánuð. Helsti keppinautur Abbas, Marwan Barghuti, sem hafði mælst með álíka mikið fylgi og Abbas í skoðanakönnunum hefur dregið framboð sitt til baka og eftir það þykir enginn frambjóðendanna sem eftir eru líklegur til að hafa sigur gegn Abbas. Barghuti og Abbas mældust með um það bil 40 prósenta fylgi í skoðanakönnunum, margfalt meira en næstu menn. Mikill munur er á afstöðu Barghuti og Abbas til þess hvernig á að berjast fyrir sjálfstæði Palestínu. Barghuti hefur verið einn af helstu hvatamönnunum að fjögurra ára vopnaðri baráttu Palestínumanna gegn ísraelskum yfirráðum á Vesturbakkanum og í Gaza. Hann hefur áunnið sér virðingu og fylgi fyrir einarða afstöðu sína gegn því að gefa nokkuð eftir af palestínsku landsvæði í samningum við Ísraela. Abbas hefur talað fyrir því að beita friðsamlegum aðgerðum og beitt sér gegn ofbeldisverkum, að mestu þó án árangurs eins og sjá mátti í skammvinnri forsætisráðherratíð hans. Ólíkt Barghuti hefur Abbas áunnið sér traust út fyrir raðir Palestínumanna, þó á kostnað trausts síns meðal Palestínumanna sem álíta margir að hann sé alltof linur í samskiptum við Ísraela. Abbas var útnefndur eftirmaður Jassers Arafats sem formaður Frelsissamtaka Palestínu daginn eftir að Arafat andaðist. Hann var einn af höfundum Oslóarsamkomulagsins og varð fyrsti forsætisráðherra Palestínu. Því embætti sagði hann lausu eftir aðeins fjóra mánuði vegna deilna við Arafat um stjórn á öryggissveitum. Abbas þykir hófsamur og lagði sig fram um að stöðva árásir herskárra hreyfinga á ísraelska borgara. Hann nýtur meiri virðingar á alþjóðavísu en heima við. Ísraelar og Bandaríkjamenn geta hugsað sér að eiga samstarf við hann en sumir Palestínumenn vantreysta honum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×