Erlent

Stirt á milli Bush og Giulianis

Samskipti George Bush Bandaríkjaforseta og Rudys Giulianis, fyrrverandi borgarstjóra í New York, eru sögð hafa borið skaða af vandræðum í tengslum við skipan nýs heimavarnaráðherra. Bernard Kerik dró sig fyrir helgi í hlé og afþakkaði tilnefningu í embættið í kjölfar þess að upp komst um vandræðamál í fortíð hans. Kerik er fyrrverandi lögreglustjóri New York borgar og viðskiptafélagi Giulianis, sem sagður er hafa mælt með honum við Bush. Málið er vandræðalegt fyrir Bush og ekki síður fyrir Giuliani, sem fær bágt fyrir meðmælin. New York Times hefur eftir heimildarmönnum í Hvíta húsinu að Bush hafi lengi haft á tilfinningunni að ekki væri hægt að treysta Giuliani og að hann væri forsetanum hollur í einu og öllu. Falli Giuliani í ónáð í Hvíta húsinu er ljóst að það getur haft víðtækar, pólitískar afleiðingar fyrir hann en Giuliani er samkvæmt könnunum meðal þeirra repúblikana sem almenningur gæti helst hugsað sér að fari í forsetaframboð eftir fjögur ár.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×