Erlent

Bóluefnabanki settur á laggirnar

Sjö helstu iðnríki heims hafa ákveðið að koma á laggirnar bóluefnabanka, til að verjast sýkla- og efnavopnaárás hryðjuverkamanna, sem talin er geta orðið hvenær sem er. Heilbrigðismálaráðherrar landanna sjö telja nauðsynlegt að koma á laggirnar miðstöð sem tæki ákvarðanir ef útbreidd og mikil hætta stafaði af efnavopnum og sýklaárásum. Þar myndu verða geymdir mörg hundruð milljónir skammta af bólusetningalyfjum. Ákvörðunin kemur í kjölfar umræðu um hættunni á sýklavopnaárás hryðjuverkasamtaka. Ráðherrarnir leggja áherslu á að slík árás gæti verið gerð hvenær sem er, ógnin sé raunveruleg. Sérstöku símasambandi hefur þegar verið komið upp allan sólarhringinn milli heilbrigðismálaráðherra sjö helstu iðnríkja heims, en það eru Bretland, Kanada, Frakkland, Þýskaland, Ítalía, Japan og Bandaríkin. Ráðherra Evrópusambandsins tekur einnig þátt í samstarfinu. Ráðherrarnir segja að miðstöðin, sem verður staðsett í Ottawa í Kanada, gæti ennfremur þjónað hlutverki í viðbúnaði og miðstýringu aðgerða gegn til dæmsi fuglaflensufaraldri. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur þegar varað við því að fuglaflensa, sem geisað hefur í Asíu, geti leitt til mannskæðs inflúensufaraldurs, einhverntíman í framtíðinni. Stofnunin telur að á milli tvær til sjö milljónir manns geti látist af völdum flensunnar, og allt að þriðjungur jarðarbúa veikst. Einungis takmarkað magn er til af inflúensulyfjum í heiminum, og standa nú yfir miklar rannsóknir varðandi þróun á bólefni og aðferðum til að framleiða það í miklu magni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×