Innlent

Aðstaða til skammar á flugvellinum

Verið er að kanna hugmyndir um gerð samgöngumiðstöðvar sem komið gæti í stað flugstöðvarinnar við Reykjavíkurflugvöll, en hún ber þess greinilega merki að hafa verið bráðabirgðahúsnæði um áratuga skeið. "Við höfum haldið því fram lengi að ekki þurfi bara nýja flugstöð heldur þurfi að athuga miklu betur þörfina á samgöngumiðstöð í Reykjavík, sem næði til flugs, rútna eða bíla," segir Jón Karl Ólafsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands. "Eins og staðan er í dag er þetta allt okkur til skammar, sérstaklega gagnvart erlendum ferðamönnum." Jón Karl segir flugstöðina augljóslega barn síns tíma, byggða til bráðabirgða fyrir um 50 árum. "Hún átti að þola að hámarki kannski hundrað þúsund farþega, en er að taka í gegn um sig tæplega 500 þúsund farþega á ári, þannig að auðvitað er aðstaðan þarna sprungin fyrir löngu síðan." Jón Karl segir að unnið hafi verið að því að koma að koma af stað viðræðum milli aðila sem reka samgöngufyrirtæki. "Svo held ég að borgin ætti að sjá sér hag í því líka að setja upp einhvers konar miðstöð þar sem fólk getur keypt, eða að minnsta kosti fengið upplýsingar um þá þjónustu sem er í boði, hvort sem flugið verður þarna áfram eða ekki. Það skiptir svo sem ekki máli í þessu samhengi," segir hann og telur að slíka samgöngumiðstöð mætti helst staðsetja niður undir Nauthólsvík, eða á svæðinu austan megin flugvallar. "Við erum þeirrar skoðunar að þetta sé nokkuð sem ætti að skoða og það sem fyrst." Heimir Már Pétursson, upplýsingafulltrúi Flugmálastjórnar Íslands, segir nefnd á vegum samgönguráðuneytisins hafa um skeið skoðað hugmyndir um byggingu samgöngumiðstöðvar í Reykjavík. Hann segir flugstöðvarhúsið upphaflega hafa verið byggt af breska hernum, en Bretar afhentu þjóðinni völlinn og tengdar byggingar laugardaginn 6. júlí 1946. "Síðan er margsinnis búið að staga og bæta í bygginguna," segir Heimir Már og telur öllum ljóst sem sæki flugstöðina heim að hún verði tæpast kölluð reisuleg og eigi orðið erfitt með að sinna hlutverki sínu, bæði hvað varði innanlandsflug og flug til Færeyja og Grænlands. "Það hefur þó með útsjónarsemi tekist að koma þarna fyrir vopnaleitarbúnaði og öðru sem þurfti."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×