Innlent

Vilja flytja bandaríska sendiráðið

Árni Þór Sigurðsson, forseti borgarstjórnar, segir það koma til greina að borgaryfirvöld komi að því að bandaríska sendiráðið verði flutt annað. "Ég tek undir það að staðsetning þess er ekki góð, meðal annars af öryggisástæðum, og borgaryfirvöld gætu komið að því í samvinnu við utanríkisráðuneytið að það yrði flutt," segir hann. Bandaríska sendiráðið við Laufásveg hefur með leyfi borgaryfirvalda komið fyrir steyptum stöplum á bílastæðum fyrir framan húsið svo ekki sé hægt að leggja bílum þar. Þetta er gert í öryggisskyni. Íbúar í nágrenni við sendiráðið eru æfir yfir þeirri röskun sem þessar og aðrar ráðstafanir hafa haft í för með sér. Erlingur Gíslason, sem býr gegnt sendiráðinu, segir að ef borgaryfirvöld telji slíka hættu vera á ferð að það réttlæti auknar varnir við sendiráðið væri nær að gera öryggisráðstafanir gagnvart öðrum íbúum í götunni, sem séu berskjaldaðir. Fyrir hálfum öðrum mánuði funduðu íbúar við Laufásveg með fulltrúum Gatnamálastofu og fóru meðal annars fram á það að sendiráðið yrði hreinlega flutt úr götunni. Árni Þór, sem er formaður samgöngunefndar, segir að nefndin hafi samþykkt ósk sendiráðsins þrátt fyrir mótmæli íbúanna þar sem engin "haldbær rök" hafi komið fram af þeirra hálfu í þessu einstaka máli. Pía Hanson, upplýsingafulltrúi bandaríska sendiráðsins, segir að starfsmenn þess kappkosti við að eiga góð samskipti við nágranna sína. Hún viðurkennir þó að sambúðin hafi ekki alltaf verið á besta máta. Pía segir að starfsmenn sendiráðsins hafi í sjálfu sér ekkert á móti því að sendiráðið verði flutt annað, en frumkvæðið þurfi að koma frá bandarískum stjórnvöldum í Washington.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×