Innlent

Vel þekktur þótt snjói í sporin

Ferðamálaráð Þýskalands hefur tekið að kynna landið í tengslum við Heimsmeistarakeppnina í fótbolta sem fram fer árið 2006. Nokkrir leikir í keppninni fara fram þar í landi, þar á meðal fimm á leikvangi sem verið er að endurbyggja í Frankfurt. Ferðamálaráðið bauð nokkrum blaða og fréttamönnum til landsins til að kynna framkvæmdir í Frankfurt og fleiri hluti. Með í för var Ásgeir Sigurvinsson, landsliðsþjálfari fótboltaliðs Íslands, en hann var í eina tíð þjóðhetja í Þýskalandi fyrir snilli sína í boltanum. Hann var meðal annars kosinn leikmaður ársins í Þýskalandi árið 1984. Ásgeir lék meðal annars með liði Stuttgart, en í ferðinni gafst honum og föruneytinu færi á að bregða sér á völlinn í Stuttgart og sjá liðið fá til sín í heimsókn lið Borussia Mönchengladbach. Leikurinn þótti reyndar ekki mjög tilþrifamikill, en lið Stuttgart náði þó að kremja fram eitt núll sigur í seinni hálfleik. Stuttgart varð þýskalandsmeistari í fyrra, en Ásgeir átti ekki von á því að svo yrði líka í ár, liðið væri ekki upp á sitt besta. "Ég spái þeim þriðja til sjötta sæti núna," sagði hann. Ásgeir neitar því ekki að leitað hafi verið eftir liðsinni hans við að efla Stuttgart fótboltaliðið. "Ég fundaði með þeim hérna en sagði þeim að ég teldi að þeir hefðu fundið rétta manninn í starfið. Matthias Sammer sé rétti maðurinn í starfið gerði áður góða hluti með Dortmund og svo hefur hann líka spilað með Stuttgart og þekkir því liðið og aðstæður," sagði hann og bætti við að þar færi því maður með reynslu. "Það er alltaf rosalega gaman að koma til Stuttgart. Þetta er eins og að koma heim," sagði Ásgeir og bætti við að enda hafi hann verið búsettur í Þýskalandi í ein fimmtán ár. "Það er mjög gaman að koma svona á leik og hitta alla gömlu félagana. Hérna er ég líka enn með góð sambönd." Ásgeiri var enda vel tekið á vellinum, stöku áhorfandi benti á hann brosandi og sumir gengu svo langt að kalla upp yfir sig gælunafn hans "Siggi!! og faðma hann að sér. Sömu sögu var að segja á móttökusvæði þar sem velunnarar liðsins, eigendur og gamlir leikmenn komu saman. Þar fóru menn ekki hratt yfir með Ásgeiri, sem stöðugt þurfti að taka í höndina á einhverjum og spjalla. Ásgeir segir samt heldur minna um það nú orðið að hann sé stoppaður á götu í Stuttgart. "Það smá snjóar yfir sporin, þetta er orðið svo langt síðan maður var hér að spila." Töluverðar breytingar hafa orðið á aðstæðum stjörnuleikmanna í fótbolta síðan Ásgeir var upp á sitt besta í Þýska boltanum. "Þetta voru nú bara smáaurar sem við vorum að fá miðað við þessar upphæðir sem leikmenn eru að fá í dag," segir hann. Markaðsvæðing fótboltans er enda mun meiri en áður var og óhemjuupphæðir sem verið er að semja um fyrir útsendingarrétt frá fótboltaleikjum. Ásgeir segir þróunina hættulega, það geti ekki verið leikmönnum hollt að vera með laun upp á hundrað þúsund pund, eða um tólf milljónir króna, í vikulaun. Þá gera fótboltaliðin orðið út á ólíka búninga sem svo er skipt um reglulega, en sannir aðdáendur verða auðvitað að eiga. Hann bendir þó á að vegur boltans hafi sjaldan verið meiri og metáhorf á leiki um heim allan. "Þetta er hins vegar slæmt fyrir liðin og í rauninni bara örfá stærstu sem væru að hagnast mest í þessu umhverfi," sagði hann og nefndi sem dæmi að sárt væri að horfa upp á stóran klúbb á borð við Leeds í sárum fjárhagsvandræðum. Ásgeir sagðist vera ánægður með Eið Smára Guðjohnsen, sem fyrirliða landsliðsins. "Eiður hefur spilað vel og skorað mikið," sagði hann og taldi engum vandkvæðum bundið að vera með slíka stórstjörnu í liðinu. Hann er þó ekki ánægður með gengi landsliðsins, sem hann segir vera óásættanlegt. "Við eigum að geta gert miklu betur," segir hann og telur að í kjölfar leiksins þar sem liðið stóð uppi í hárinu á Ítalíu hér heima hafi menn orðið full sókndjarfir. "Við þurfum að leggja meiri áherslu á varnarleikinn." Um leið telur Ásgeir að möguleikar landsins séu ef til vill ekki ýkja miklir meðal stórþjóða fótboltans. "Við erum bara lítið land og ekki með það úrval af sterkum einstaklingum sem þarf." Hann er samt ekki par ánægður með styrkleikalista FIFA yfir fótboltalandslið heimsins, en þar er landið í nítugasta sæti. "Ég gef ekkert fyrir þennan útreikning sem enginn skilur og skiptir engu um mat á styrkleika liða," segir Ásgeir. "Við höfum ekki valið okkur andstæðinga með það fyrir augum að færast ofar á þennan lista," bætir hann við, en býr sig um leið undir að efla liðið og bæta við einhverjum sigrum. "Og þá færumst við náttúrlega ofar á þessum lista." Þegar Ásgeir hætti í boltanum árið 1990 hóf hann rekstur drykkjarvöruverslunar í Stuttgart. Í fjögur ár stafaði hann þar og byggði upp reksturinn og laðaði til sín gesti, ekki síst með því að vera sjálfur á staðnum. Í búðinni bauð Ásgeir nær allar drykkjarvörur aðrar en mjólk. Síðustu árin hefur hann dregið sig út úr rekstrinum, en á húsnæðið og leigir út aðstöðuna fyrir verslunina. Hann er þó tregur til að ræða mikið reksturinn sem hann hefur tekið sér fyrir hendur og vill halda þeim hlutum fyrir sjálfan sig. Hann viðurkennir þó að stundum geti verið snúið að samræma líf þjálfara og fagmanns á fótboltasviðinu og líf athafnamanns á viðskiptasviðinu, en Ásgeir er einnig í stjórn fótboltafélagsins Stoke í Bretlandi. Öllu fylgja þessu nokkuð mikil ferðalög. "Fótboltinn er í fyrsta sæti og hefur alltaf verið," segir Ásgeir, þegar hann er spurður hvað honum þyki skemmtilegast að gera. "Það er gott að vera kominn heim aftur, þar líður mér vel," segir hann og bætir við að hann ætli að sinna áfram þeim verkum sem sér hafi verið falin. Ásgeir segir lítið toga í sig þó svo að næg atvinnutækifæri bíði hans í útlöndum. "En maður ætti svo sem aldrei að útloka neitt," segir hann samt sposkur á svip.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×