Innlent

Sex þúsund konur umskornar daglega

Daglega eru sex þúsund stúlkur umskornar í heiminum en aðgerðin er kvalafull, hættuleg og algerlega tilgangslaus. Hópur gegn limlestingu á kynfærum kvenna gengst í dag fyrir fundi þar sem vakin er athygli á þessum hryllingi og honum mótmælt. Ríflega 135 milljónir kvenna í heiminum hafa þurft að sæta því að snípur þeirra, og í sumum tilvikum innri og ytri barmar líka, hafa verið skorin burt. Umskurn kvenna er landlæg í mörgum löndum Afríku og Asíu en einnig eru dæmi um slíkar limlestingar á meðal innflytjenda á Vesturlöndum. Aðgerðin fer yfirleitt fram án deyfingar, telpunum er haldið niðri, fætur þeirra settir í höft og lærin glennt í sundur. Kynfærin eru skorin burt með búrhnífum, rakvélarblöðum og jafnvel hvössum steinum. Að aðgerð lokinni er saumað fyrir en þó skilið eftir op fyrir þvag og tíðablóð. Með þessu þykjast menn tryggja að stúlkurnar verði hreinar meyjar þangað til þær giftast. Þessu ofbeldi hyggst hópur gegn limlestingu á kynfærum mótmæla á fundi í dag sem er liður í 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi. Að sögn Herdísar Tryggvadóttur, forsvarsmanns hópsins, kviknaði hugmyndin þegar sómalski rithöfundurinn Waris Dirie sýndi myndband á fundi hérlendis fyrir nokkrum árum en á því sést þegar lítil stúlka er umskorin. "Skelfingar- og kvalaópin voru slík að þegar myndin var búin þá stóð ég upp. Ég gat ekki setið lengur heldur sagði við vinkonur mínar að ég væri viss um að við gætum fengið íslenskar konur til að rísa upp allar sem ein og mótmæla þessu." Herdís segir að hópurinn hafi rætt við kristinboða sem starfað hafa í Afríku og þeir frætt þær um hversu erfitt sé að eiga við umskurðinn. "Þessir siðir hafa verið við lýði í mörg þúsund ár og hafa þess vegna fest djúpar rætur í þjóðarsálinni. Þannig er stúlkum talin trú um að séu þær ekki umskornar þá geti þær ekki átt börn og að enginn vilji giftast þeim. Einn kristniboðinn líkti þessu við að ef einhverjir útlendingar kæmu hingað til lands og segðu við okkur að við yrðum að hætta að tala íslensku. Þeim þykir mörgum jafn fáránlegt að hætta að umskera eins og okkur þætti að láta af móðurmálinu." Fundurinn fer fram í Norræna húsinu í dag og hefst klukkan tólf. Allir eru velkomnir en Herdís segir samt að einkum sé verið að höfða til kvenna því karlar einoki svo oft sviðið. "Við viljum að konur taki meiri þátt í heimsmálunum."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×