Viðskipti innlent

Burðarás undir væntingum

Hagnaður Burðaráss það sem af er ári er 11,7 milljarðar króna. Í gær gaf félagið út afkomutölur fyrir þriðja ársfjórðung og nam hagnaður á því tímabili 4,7 milljörðum. Þetta er nokkuð undir spádómum greiningardeilda bankanna sem gert höfðu ráð fyrir fimm til sex milljarða hagnaði. Rekstur Burðaráss greinist í tvennt. Annars vegar starfar félagið að fjárfestingum og hins vegar rekur Burðarás flutningafyrirtækið Eimskip. Fjárfestingarstarfsemin skilaði 4,4 milljarða hagnaði en rekstur Eimskips 342 milljónum. Friðrik Jóhannesson, forstjóri Burðaráss, segir afkomu félagsins einkennast mjög af hækkunum á hlutabréfamarkaði. "Þetta einkennist af mjög miklum hækkunum á hlutabréfamarkaði en þetta er engu að síður mjög góð útkoma," segir Friðrik. Hann segir að rekstur Eimskipafélagsins hafi einnig farið batnandi. "Það er batnandi afkoma hjá Eimskipafélaginu og ef horft er til þeirra hagræðingaraðgerða sem farið hefur verið í þá á reksturinn enn eftir að styrkjast," segir hann. Greiningardeild KB banka sagði í Hálf fimm fréttum í gær að óinnleystur hagnaður Burðaráss af hlutabréfaviðskiptum sé minni en búist hafi verið við.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×