Innlent

Markvisst fjársvelti háskólanna

Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður Vinstri-grænna, og Margrét Sverrisdóttir, framkvæmdastjóri Frjálslynda flokksins, segja að ríkisstjórnin hafi markvisst svelt ríkisháskólana til að undirbúa jarðveginn fyrir skólagjöld. Samfylkingin telur skólagjöld koma til greina í undantekningartilfellum. Menntamálaráðherra skoðar nú að leggja fram frumvarp um að leyfa ríkisháskólum að innheimta skólagjöld af nemendum í framhaldsnámi. Málið er komið skammt á veg og endanleg ákvörðun liggur ekki fyrir. Margrét Sverrisdóttir segir að ríkisháskólarnir eigi að vera öryggisventill svo allir hafi jafnan rétt til náms. Hún segir að fólk sé farið að ljá skólagjaldapólitík Sjálfstæðisflokksins eyra eftir að ríkisskólarnir hafi markvisst verið sveltir. Frjálslyndi flokkurinn vari við því, þó svo þeir styðji einkaframtak. Þeir eru nefnilega á móti einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu.  Kolbrún Halldórsdóttir segir að jarðvegurinn undir skólagjöld hafi verið undirbúinn með því að ýta undir ríkisstyrkta einkaskóla. Sameining Tækniháskólans og Háskólans í Reykjavík hafi haft þar mikla þýðingu. Með því hafi verið ákveðið að ákveðnar greinar í tækninámi á háskólastigi standi fólki ekki til boða, nema gegn greiðslu hárra skólagjalda. Þetta er forkastanlegt og með þessu hefur verið brotið blað segir Kolbrún. Efnaminna fólk og konur fara nú að hugsa sig tvisvar um hvort það fari í háskólanám. Samfylkingin hefur sagt að það komi til greina að skoða gjaldtöku af nemendum í framhaldsnámi á háskólastigi. Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segist almennt séð lítast illa á skólagjaldavæðingu sjálfstæðismanna á háskóalstiginu en finnst gjaldtaka koma til greina í ákveðnum tegundum framhaldsnáms að uppfylltum vissum skilyrðum. Það þurfi hins vegar að skoða heildarfjármögnun háskólastigsins til framtíðar í þessu sambandi. Björgvin segir ríkisháskólana hafa verið fjársvelta út í horn og því séu skólagjöld komin í umræðuna. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×