Skoðun

Eymd í borginni

Fátækt - Sigrún Ármanns Reynisdóttir Mitt í allri umræðunni um hagsæld og velferð og að Ísland sé með ríkustu löndum heims býr hér stór hópur fólks við mikla erfiðleika sökum fátæktar. Það er allt gert til að fela ástandið og það eru margir sem vilja ekki horfast í augu við raunveruleikann. Og það er talað um að verkafólk sé með 200.000 kr. á mánuði eða meira. En sannleikurinn er sá að verkafólk er yfirleitt með 100.000 á mánuði og jafnvel minna. Það sjá það allir sem vilja að það lifir enginn mannsæmandi lífi á þeim launum. Fólk kvartar mjög yfir því að það fái synjun hjá félagsþjónustunni ef það leitar þangað og sé jafnvel vísað til hjálparstofnana. Það er þakkarvert sem reynt er að gera til þess að hjálpa þessu nauðstadda fólki en þetta er neyðaraðstoð og ekki hægt að ætlast til þess að fólk þurfi árum saman að framfleyta sér á slíku. Þetta brýtur niður sjálfstraust fólks og margir kvarta sáran yfir þeirri niðurlægingu sem þeir upplifir við að þurfa að þiggja ölmusu. Einstæð móðir sem er öryrki var hafnað er hún bað um fjárhagsaðstoð og sagt að hún væri of tekjuhá! Svo hörmulega lág eru þau mörk sem félagsþjónustan setur. Sérstakar húsaleigubætur eru í boði fyrir fólk til að geta leigt úti á almennum leigumarkaði. Þessar sérstöku húsaleigubætur eru skattlagðar. Öryrki gat fengið hjá félagsþjónustunni 28.000 í húsaleigubætur en íbúðin kostaði 95.000 á mánuði. Greyðslubyrði öryrkjans er því ansi há. En ef fólk þiggur þessar bætur fer það af biðlista eftir félagslegu húsnæði. Almenni markaðurinn er líka mjög ótryggur. Eymd og örvænting er daglegt brauð hjá þessu fólki og oft hef ég sé tár blika á kinn og bólgna hvarma eftir mikinn grát og andvökunætur. Það þarf stórátak til þess að snúa þessari óheillaþróun við. Félagsþjónustan getur greinilega ekki ráðið við allan þennan vanda og útrýmt fátækt og eymd úr borginni. Það þarf pólítískan vilja, bæði hjá ríki og borg, til þess að breyta þessu. Höfundur er formaður samtaka gegn fátækt.



Skoðun

Sjá meira


×