Skoðun

Hugmyndafræði í stað hagkvæmni

Skattar - Guðmundur Örn Jónsson Vegna umræðu um skattamál upp á síðkastið er áhugavert að líta á hvað nóbelsverðlaunahafinn og fyrrum efnahagsráðgjafi Bill Clinton, Joseph Stiglitz, segir um málefnið í bók sinni "Economics of the Public Sector". Samkvæmt kenningunni um markaðshagkerfið stjórnar verðmyndun á markaði framboði og eftirspurn. Skattar hins opinbera sem lagðir eru á ýmis verðmæti gera þau aftur á móti dýrari. Það leiðir gjarnan til minni eftirspurnar og framboðs á þeim, sem svo minnkar umsvifin í hagkerfinu og almenna hagsæld. Stiglitz bendir á að skattar séu skaðlegir í öðru veldi. T.d. að 2% skattur er fjórum sinnum skaðlegri en 1% skattur, og 10% skattur er 100 sinnum skaðlegri en 1% skattur. Þess vegna ætti ríkisvaldið að hafa marga lága skatta í stað fárra hárra, en þetta er t.d. þvert á fyrirætlanir núverandi stjórnvalda, sem ætla alfarið að fella niður nokkra skatta. Stiglitz fjallar einnig um sérstök áhrif tekjuskatts. Ólíkt öðrum sköttum virðist hann almennt ekki minnka framboð á vinnuafli og leiddi t.d. álagning hátekjuskatts í Bandaríkjunum í tíð Bill Clinton til þess að hátekjumenn unnu meira. Ástæðan er einfaldlega sú að fólk metur sinn frítíma til fjár. Á móti meiri fjármunum sem fólk fær í vasann fyrir hverja vinnustund eftir lækkun skatta þarf það einnig að vinna styttri vinnudag til að láta enda ná saman. Þannig getur það varið meiri tíma með fjölskyldunni og í áhugamál. Samkvæmt Stiglitz er það mikilvægast varðandi tekjuskatt að hann letji ekki fólk til að hefja störf og þarf því tekjuskattur að vera lágur á lágar tekjur. Samkvæmt því ættu íslensk stjórnvöld að hækka persónuafsláttinn í stað þess að lækka skattprósentuna ef markmiðið er að bæta almenna hagsæld. Íslensk stjórnvöld ætla að gera þveröfugt og hafa rökstutt þá stefnu með fullyrðingum sem ganga þvert á reynslu Bandaríkjamanna og rannsóknir Stiglitz. Annað sem ekki hefur verið minnst á í umræðunni um skattamál er að hið opinbera getur innheimt tekjur á öðrum vettvangi án þess að hafa áhrif á umsvif í hagkerfinu. Uppboð á náttúruauðlindum, svo sem fjarskiptarásum og veiðiheimildum, breyta í engu framboði þeirra þar sem þau eru frá náttúrunnar hendi takmörkuð. Þau eru því skynsamlegri tekjustofn fyrir ríkið en flestir skattar. Þetta er einnig sú leið sem Norðmenn hafa farið við nýtingu olíuauðlinda sinna, en þeir eru líklegast eina þjóðin í heiminum sem komist hefur ósködduð frá því að vera rík af náttúruauðlindum. Að ofansögðu virðist skattastefna núverandi ríkisstjórnar stjórnast meira af hugmyndafræði en hagkvæmisrökum.



Skoðun

Sjá meira


×