Skoðun

Gæti veikt öryggi Íslands

Ísland og öryggisráðið - Jóhann M. Hauksson Ísland sækir nú um setu í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Nokkrar ástæður eru gefnar fyrir því, og stenst engin þeirra nánari skoðun. Því getur maður ekki annað en dregið þá ályktun að raunverulegar ástæður þessarar stefnu séu aðrar en þær sem gefnar eru upp. Þegar Halldór Ásgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra, greindi frá umsókn Íslands nefndi hann til þrjú atriði sem gerðu það að verkum að landið væri vel fallið til að sitja í Öryggisráðinu. Þau eru öll hlægileg þegar betur er að gáð. Hann talaði um framlag Íslands til friðar og stöðugleika í heiminum, að Ísland mundi stuðla að umbótum í Öryggisráðinu og loks talaði hann um afvopnunarmál og nauðsyn þess að hindra útbreiðslu gjöreyðingarvopna. Hvernig við Íslendingar ætlum að koma í veg fyrir útbreiðslu vopna eða að stuðla að umbótum í alþjóðastofnunum kemur ekki fram. Enda er víst að Ísland er gjörsamlega vanmáttugt til nokkurs slíks. Eina framlag okkar til friðar og stöðugleika er að hafa aldrei farið í stríð, en það stafar fremur af því að við höfum ekki her en af friðarást. Nógu staðföst eru stjórnvöld þessa lands í að gera það sem Bandaríkjamenn vilja, og skiptir þá engu hvort við eigum að vera fylgjandi stríði eður ei. Hvernig það getur talist framlag til friðar er á huldu. Sem betur fer eru til önnur rök en orð ráðherrans fyrir umsókn um setu í Öryggisráðinu. Í Fréttablaðinu 16. okt. sl. kom Pétur Leifsson með tvær ástæður fyrir því. Hann sagði að seta í Öryggisráðinu mundi "styrkja mjög öryggishagsmuni Íslands", og hann talaði um "jaðaráhrif" í öðrum alþjóðastofnunum. Öryggi Íslands er ekki ógnað af hugsanlegri hernaðaríhlutun annarra ríkja; hér er svokallað "Security Community" eins og stundum er talað um í stjórnmálafræði. Eina hugsanlega hættan sem að okkur gæti stafað væri ef hryðjuverkamenn fengju áhuga á landinu. Seta í Öryggisráðinu gæti ekki annað en aukið þann hugsanlega áhuga., þó það skuli viðurkennast að ákaflega er ólíklegt að það hefði nokkur áhrif. Því gæti seta í Öryggisráðinu haft þau einu áhrif að minnka öryggi, eða "veikja öryggishagsmuni", landsins, ef hún hefði nokkur áhrif þar á. Þegar Pétur talar um "jaðaráhrif" á hann áreiðanlega við að frekar yrði hlustað á rödd Íslands í öðrum alþjóðastofnunum er landið situr í Öryggisráðinu. Hugsanlega, ef til vill, kannski já. En alls er það óvíst. Ef horft skal til annarra smáríkja sem setið hafa í þessari stofnun skyldi maður ekki ætla að meira yrði hlustað á Ísland eftir en áður. Gíana, Máritanía, Gabon, Malta, Djíbútí... Þau skipta jafn litlu máli á alþjóðvettvangi nú og þau gerðu áður en þau sátu í Öryggisráðinu. Engin "jaðaráhrif" þar. Nú væri hægt að velta raunverulegum ástæðum umsóknarinnar fyrir sér. Það ætla ég þó ekki að gera hér. Hins vegar má segja að það sé sosum í lagi að einhverjir Íslendingar sitji í New York og þykist koma í veg fyrir útbreiðslu kjarnavopna eða stuðla að friði. Gallinn er bara sá að það kostar stórfé og er einfaldlega ekki þess virði.



Skoðun

Sjá meira


×