Innlent

Ætlar að minnka leynd

Valgerður Sverrisdóttir, viðskiptaráðherra, hyggst draga úr þeirri leynd sem hvílt hefur yfir störfum Fjármálaeftirlitsins og heimila því að gera niðurstöður sínar opinberar í eftirliti með verðbréfamarkaði. Nokkur mál hafa komið upp í íslensku viðskiptalífi á undanförnum árum sem hafa verið tilefni til spurninga um hvort réttum leikreglum væri fylgt á markaðnum. Frá Fjármálaeftirlitinu hafa hins vegar ekki fengist upplýsingar um það hvort einstök mál væru þar til skoðunar og hafa starfsmenn borið því við að þar hvíldi leynd yfir slíkum upplýsingum. Jóhanna Sigurðardóttir spurði viðskiptaráðherra á Alþingi í dag hvort til stæði að rýmka heimildir Fjármálaeftirlitsins til að veita upplýsingar. Hún sagðist sannfærð um að slíkt veitti mikið aðhald og bætti umhverfið á viðskiptamarkaði. Enda hefði Fjármálaeftirlitið oft sætt gagnrýni fyrir að vera veik stofnun, en skýringin væri oft sá leyndarhjúpur sem hvíldi yfir aðgerðum og starfsemi þess. Ráðherran svaraði því til að í undirbúningi væri frumvarp um að aflétta leyndarhjúpnum. Hún sagðist telja mikilvægt að heimildir Fjármálaeftirlitsins yrðu rýmkaðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×