Skoðun

Alþjóðlegur beinverndardagur

Alþjóðlegur beinverndardagur er haldinn 20. október ár hvert. Á hverju ári er dagurinn helgaður sértæku efni sem tengist beinþynningu. Yfirskrift beinverndardagsins í ár er Karlar og beinþynning. Beinvernd mun, í samstarfi við alþjóða beinverndarsamtökin IOF, vera með átak í tilefni dagsins til að auka vitund um beinþynningu meðal karla. Nýr bæklingur um karla og beinþynningu kemur út auk fréttabréfs sem helgað er þessu málefni sérstaklega. Beinvernd bendir körlum á að það eru margir þættir sem geta haft áhrif á beinin s.s. erfðaþættir, reykingar, óhófleg áfengisneysla, hreyfingarleysi, næring sem ekki inniheldur nægjanlegt kalk og D-vítamín, seinkaður kynþroski og aðrir sjúkdómar. Auk þess getur notkun ákveðinna lyfja s.s. sykurstera einnig valdið beinþynningu. Svarið spurningum í áhættuprófi um beinþynningu sem er að finna á vef Beinverndar, www.beinvernd.is og kannið hvort þið eruð í áhættuhópi! Hér á landi er talið að rekja megi um 1.000-1.200 brot til beinþynningar á ári hverju. Algengustu brotin eru framhandleggsbrot, samfallsbrot í hrygg og mjaðmarbrot, sem eru alvarlegust. Sjúkdómurinn er stundum nefndur "hinn þögli faraldur" vegna þess að einkenni hans koma oft ekki í ljós fyrr en við beinbrot. Brotatíðni er mismunandi eftir löndum hjá körlum og konum, en álagið og þjáningarnar sem brotin valda eru að aukast vegna þess að fólk lifir nú að jafnaði lengur en áður og þar af leiðandi eru fleiri aldraðir í heiminum sem hafa tilhneigingu til að brotna. Beinbrot vegna beinþynningar eru kostnaðarsöm, bæði hvað varðar þjáningu þeirra sem fyrir þeim verða og vegna meðferðar og umönnunar Tiltölulega auðvelt er að greina beinþynningu með svokölluðum beinþéttnimælum, sem er góður mælikvarði á brotahættu, líkt og blóðþrýstingur og blóðfitur segja fyrir um áhættuna á kransæðastíflu eða heilablóðfalli. Fullkomnir beinþéttnimælar, svokallaðir DEXA-mælar, eru á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri og Landspítala - háskólasjúkrahúsi í Fossvogi, en hægt er að fara í "minni" mælingu sem gefur vísbendingu um beinhaginn hjá Lyfju, Gigtarfélagi Íslands, Gigtsjúkdómadeild LHS og hjá Beinvernd. Auk þess hefur Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi yfir að ráða handarmæli sem einnig gefur vísbendingu um ástand beinanna. Beinþynningu er hægt að meðhöndla með sértækum lyfjum, auk D-vítamíns og kalks. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt að lyfjameðferð getur viðhaldið beinþéttni og jafnvel aukið beinmassann. Lífshættir og erfðaþættir ráða að miklu leyti þéttni og styrk beina. Þess vegna er mikilvægt að forvarnarstarf sé öflugt og nauðsynlegt er að tryggja forvörnina alla ævi. Þar skiptir hvað mestu máli reglubundin líkamleg hreyfing og mataræði sem inniheldur D-vítamín og kalk. Höfundur er íþróttafræðingur og framkvæmdastjóri Beinverndar.



Skoðun

Sjá meira


×