Skoðun

Þörf á áætlun um fækkun slysa

Slysavarnir í umferðinni - Gunnar H. Gunnarsson Á þingi Neytendasamtakanna, sem haldið var dagana 24. og 25. september s.l., lagði ég fram eftirfarandi tilögu að áskorun á ríkisstjórnina og var hún einróma samþykkt: "Gerð verði vönduð áætlun um fækkun alvarlega slasaðra og dáinna í umferðarslysum á Íslandi. Þessi áætlun innihaldi fjárhags- og framkvæmdaáætlun og verði sambærileg við þær bestu á þessu sviði á Norðurlöndunum og í V-Evrópu. Unnið verði eftir áætluninni á árunum 2001 – 2003. Hið sama verði einnig látið gilda um fækkun alvarlega slasaðra í umferðarslysum á Íslandi". Tillögunni fylgdi eftirfarandi greinargerð: "Á vegum dómsmálaráðuneytisins var í gildi áætlun um 20% fækkun alvarlega slasaðra og dáinna í umferðinni fyrir aldamót. Það takmark náðist ekki að fullu vegna þess að sú áætlun innihélt enga fjárhags – og framkvæmdaáætlun. Með nágrannalöndin og Reykjavíkurborg sem fyrirmynd ætti ríkisvaldið að gera svona áætlun og vinna eftir henni, enda yrði það mjög þjóðhagslega arðbært, fyrir utan að hún myndi fækka verulega þeim mannlegu harmleikjum sem umferðarslysin valda". Nú kynni einhver að spyrja: "Hefur borgin staðið sig eitthvað betur í þessu efni?" Svarið er já og það er auðvelt að sýna fram á það, sbr. eftirfarandi útreikning, þar sem gengið er út frá því að þjóðhagslegur kostnaður vegna eins dáins sé 60 milljónir króna, vegna eins alvarlega slasaðs sé 30 milljónir króna og vegna eins minni háttar slasaðs sé 6 milljónir króna. Heildarmeðalkostnaður á ári (K) fyrir þjóðarbúið vegna umferðarslysa í Reykjavík annars vegar og utan höfuðborgarinnar hins vegar á fjögurra ára tímabili, þ.e. 1996 – 1999 og 2000 – 2003, er eftirfarandi: Fyrir fyrri fjögur árin að meðaltali á ári: K (Reykjavík)= 6350 milljónir króna og K (utan Reykjavíkur) = 9560 milljónir króna. Fyrir seinni fjögur árin að meðaltali á ári: K (Reykjavík ) = 4150 milljónir króna og K (utan Reykjavíkur) =9510 milljónir króna. Minnkun umferðarslysakostnaðar á ofangreindu tímabili er í Reykjavík (6350 mínus 4150) = 2200 milljónir króna, en einungis (9560 mínus 9510 ) = 50 milljónir króna utan Reykjavíkur. Ástæðan fyrir þessum gífurlega mun er alveg ljós, unnið hefur verið skipulega að þessum málum í Reykjavík, í upp undir áratug og sett árlega fjárveiting í þau, upp á hér um bil 200 milljónir króna á meðan ríkið hefur ekki unnið skipulega að þeim og veitt í þau litlu fé. Höfundur er deildarverkfræðingur á Umferðardeild borgarverkfræðings.



Skoðun

Sjá meira


×