Innlent

Brim hleypir illu blóði í viðræður

Guðmundur Kristjánsson framkvæmdastjóri Brims hefur að mati forkólfa verkalýðssamtakanna hleypt illu blóði í kjaraviðræður sjómanna og útvegsmanna með því að þvinga áhöfn Sólbaks til að gera leynilega sérsamninga. Á móti sakar Guðmundur Sjómannasambandið um gamalsdags hugsunarhátt sem hindri framþróun í sjávarútvegi. Báðir aðilar eru sammála um að ítrekaðar ívilnanir ríkisvaldsins í kjaradeilur sjómanna við útvegsmenn hafi haft slæm áhrif á sambandið milli deilenda, sem lýsi sér í því að nánast öll ágreiningsefni endi fyrir dómstólum. Verkalýðsforingjarnir telja hins vegar ansi langt gengið hjá Brimi að semja sérstaklega við áhöfn togarans Sólbaks á þessum tímapunkti. Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri ASÍ segir að þegar forsvarsmaður stærsta útgerðarfélags landsins reyni að kljúfa sig út úr sínum samtökum, þar sem hann sé í stjórn, hafi það auðvitað áhrif á kjaraviðræður. Guðmundur segir hins vegar að samskiptamáti útgerðarmanna og sjómanna sé löngu orðin staðnaður og nú sé komin tími til að halda áfram, enda sé framþróun á markaðinum og frjálsræði. Guðmundur segist hafa reynt í allt sumar að ná sérsamningum við áhöfnina með fulltyngi verkalýðsfélagsins en þaðan hafi einungis heyrst orðið nei. Gylfi er hins vegar á því að samningar af þessu tagi verði að teljast þvingun því launþeginn standi frammi fyrir tveimur kostum, að skrifa undir sérsamning eða fá sér annað starf. Í það minnsta geti samningar af þessu tagi ,sem verkalýðsfélagið fær ekki einu sinni að sjá, ekki gert neitt nema spilla fyrir samningaviðræðum þar sem ná þarf fram kjarabótum fyrir stéttina í heild. Hann segir það hafa komið fram í ályktun Starfsgreinasambandsins í gær að svara ætti ákalli sjómanna um aðstoð og ýmsar leiðir væru til þess, hvort sem væri við löndunarbanni eða þjónustustoppi á þetta tiltekna skip.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×