Innlent

Rannsókn á frumstigi

Rannsókn á einu umfangsmesta fíkniefnamáli síðustu ára sem staðið hefur yfir síðan í mars er á frumstigi og heldur áfram næstu vikur að sögn Ásgeirs Karlssonar, yfirmanns fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík. Hann segir að enn sé ekki allt komið fram í málinu. Upphaf málsins var þegar tæplega þrjú kíló af amfetamíni og nokkuð af kókaíni fannst í vörusendingu í Dettifossi, skipi Eimskipafélagsins. Lögreglan og tollgæslan í Reykjavík hófu rannsókn í framhaldinu sem leiddi til að mikið magn af amfetamíni fannst í vörusendingu í Dettifossi. Heimildir blaðsins herma að það hafi verið um átta kíló en lögreglan viljað staðfesta það. Þriðja sendingin voru 2.000 skammtar af LSD sem komu með pósti í síðustu viku. Ein kona og þrír menn voru handtekin á föstudaginn fyrir viku og hafa öll verið úrskurðuð í gæsluvarðhald. Fíkniefnadeildin hefur verið í samstarfi við lögregluna í Hollandi en fíkniefnasendingarnar koma allar þaðan. Einn íslenskur lögreglumaður fór til Hollands og var viðstaddur þegar tveir Íslendingar voru handteknir þar í landi. Annar var handtekinn sama dag og fjórmenningarnir en hinn síðasta mánudag þegar húsleit var gerð þar sem þeir dvöldu í Hollandi. Þar fundust kannabisplöntur og rúmt kíló af kókaíni. Tvær af þremur fíkniefnasendingunum komu með Dettifossi. Í yfirlýsingu frá Eimskipafélag Íslands segir að forráðamenn og starfsfólk harmi að skip félagsins hafi verið misnotað til að flytja ólögleg og lífshættuleg fíkniefni til landsins. Félagið leggur áherslu á forvarnir og öflugt eftirlit til að koma í fyrir smygl á fíkniefnum og vinnur í nánu sambandi við lögreglu og tollayfirvöld í öllum höfnum sem skipin hafa viðkomu í.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×