Innlent

Þung viðurlög við einelti

Forstjóri Fangelsismálastofnunar segir að þungum viðurlögum verði beitt ef fangar leggi samfanga sína í einelti og hugsanlega verði slík mál kærð til lögreglu. Valtýr Sigurðsson forstjóri Fangelsismálastofnunar sendi fangelsinu að Litla hrauni bréf í síðustu viku, þar sem hann segir að frá því hann hafi tekið við því starfi hafi sér iðulega borist ábendingar og kvartanir frá tilteknum föngum, aðstandendum og lögmönnum um einelti og ofbeldi sem fangar á Litla hrauni séu beittir af samföngum. Þessi háttsemi hafi aðallega beinst gegn föngum sem dæmdir hafa verið fyrir kynferðisbrot. Ástandið sé þannig að sumir fanganna veigri sér við að fara út úr klefum sínum, nema nauðsyn beri til. Í bréfinu segist fangelsismálastjóri líta framkomu sem þessa mjög alvarlegum augum og hann ætli að beita sér fyrir því að koma í veg fyrir að slíkt eigi sér stað. Rík áhersla verði því lögð á að upplýsa mál af þessu tagi og biður hann fangaverði að vera sérstaklega á varðbergi og tilkynna um hvert tilvik sem bent geti til ofbeldis af þessu tagi. Fangelsismálastjóri segir að verði fangi staðinn að slíku broti megi hann búast við agaviðurlögum sem hafi að sjálfsögðu áhrif á framvindu hans í refsivistinni og einnig að málið kunni að verða kært til lögreglu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×