Innlent

Þriðjungur reyndi sjálfsvíg

Réttur þriðjungur þeirra unglinga sem lagðir voru inn á Barna- og unglingageðdeild á árunum 2001 og 2002 höfðu reynt að taka líf sitt eða skaðað sjálfa sig. Algengustu geðraskanir hjá þessum unglingum voru þunglyndi, áfallastreita i kjölfar misnotkunar, ofvirkni- og hegðunarraskanir og loks misnotkun vímuefna, að sögn Ólafs Ó. Guðmundssonar yfirlæknis á BUGL. BUGL skiptist í þrjár deildir; göngudeild, þangað sem langflestir leita, barnadeild og unglingadeild. Á unglingadeild dvelja einstaklingar á aldrinum 13-17 ára. Ólafur sagði, að af samtals 100 innlögnum á unglingageðdeild árið 1995 hefði í 13% tilvika verið um sjálfsskaða og sjálfsvígstilraunir að ræða. Af 168 innlögnum 2001 og 2002 væri hlutfall þeirra sem reyndu að taka líf sitt eða höfðu skaðað sig komið upp í 32.7%. " Það er því ljóst að sjálfsskaðahegðun og sjálfsvígstilraunir unglinga er vaxandi ástæða fyrir innlögnum á BUGL og ein af skýringunum fyrir vaxandi eftirspurn eftir þjónustu deildarinnar," sagði Ólafur. "Þannig hafa um 40% þunglyndra unglinga sem leggjast inn á BUGL skaðað sig eða gert tilraun til sjálfsvígs. Eftir því sem líður á unglingsaldurinn er þunglyndi orðið jafnalgengt hjá unglingum og fullorðnum og algengara hjá stelpum heldur en strákum." Ólafur sagði vitað, að þunglyndi, áfallastreita og hegðunarraskanir væru sýnilegri hjá unglingum nú heldur en áður. Frekar væri leitað eftir þjónustu vegna þessa nú heldur en áður, meðal annars vegna minni fordóma. "Væntanlega endurspeglar það að einhverju leyti raunverulega aukningu þessum vanda," sagði Ólafur. "Í nágrannalöndunum hefur sama þróun átt sér stað og það hefur verið um raunverulega aukningu að ræða. Eitt af því sem menn hugleiða er hvort þetta sé af völdum einhverra þátta í samfélaginu og þá hvaða þátta." Í um 11% tilvika var vímuefnanotkun til staðar hjá þeim sem lögðust inn á árunum 2001 og 2002, að sögn Ólafs. Af þeim höfðu rúm 70% gert tilraun til sjálfsvígs sem var þá innlagnarástæðan á BUGL.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×