Erlent

Bush enn yfir

Bush Bandaríkjaforseti virðist enn þá hafa töluvert forskot á keppinaut sinn, John Kerry. Könnunum ber þó ekki saman og ýmislegt bendir til þess að óvissan sé í raun meiri en þær gefa til kynna.  Kannanir berast nú nánast daglega og munurinn á þeim er á köflum ótrúlega mikill. Almennt séð eru niðurstöðurnar þó neikvæðar fyrir Kerry og heldur jákvæðar fyrir Bush. Í nýrri könnun CBS og New York Times hefur Bush um 50% fylgi á meðan Kerry er rétt yfir 40%. Gallup segir Bush með 14% forskot. Viðamikil könnun Pew-center leiddi hins vegar einna helst í ljós, hversu undarlegt tæki kannanir eru. Tvær kannanir voru gerðar með fárra daga millibili. Í þeirri fyrri var munurinn 12%, Bush í dag, en í þeirri síðari var munurinn ekki marktækur. Kannanir Christian Science Monitor og Gallup benda til þess að óháðir eða óflokksbundnir kjósendur hallist fremur að Kerry, en þeir kjósendur eru taldi geta riðið baggamuninn í kosningunum í vetur. Annar þáttur sem skiptir máli er Ralph Nader. Dómstóll í Flórída úrskurðaði í dag, að hann ætti að vera á kjörseðlum þar. Demókratar óttast að það geti kostað Kerry atkvæði, en á Flórída skiptir hvert atkvæði máli þar sem munurinn er lítill og talið öruggt, að sá frambjóðandi sem bíður lægri hlut þar tapi kosningunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×