Erlent

Engar sættir

Stálinn stinn mættust í Leeds-kastala í Bretlandi þar sem deilendur á Norður-Írlandi reyndu að bjarga friðarsamkomulaginu frá 1998. Tony Blair og Bertie Ahern, forsætisráðherrar Bretlands og Írlands, reyndu hvað þeir gátu, en tortryggni og andúð komu í veg fyrir sættir. Blair og Ahers settu sér það markmið að ná samkomulagi fyrir hádegi í dag, og takmarkið var ljóst. Blair sagði nú væri tími til kominn að líta til framtíðar, hætta yrði öllu ofbeldi og koma á skulbindingum um sanngjörn skipti valda. Hann sagði að næðist ekki samkomulag þegar það augljóslega ætti að nást, yrði að finna nýjar leiðir til þess að ná árangri. Árangurinn varð enginn, enda bæði mikill tortryggni og nánast óvild á milli harðlínumanna meðal mótmælenda, einkum prestsins Ians Paisleys, og Sinn Fein, stjórnmálaarms írska lýðveldishersins IRA. Friðarsamkomulagið frá því 1998, sem kom á fót heimastjórn á Norður-Írlandi, strandaði einmitt á því fyrir tveimur árum að þessir hópar gátu ekki starfað saman í stjórn. Núna eru þeir stærstu stjórnmálahóparnir á svæðinu eftir kosningar í fyrra, og því vandséð hvernig sættir gætu tekist. Engu að síður gerðu Tony Blair og Bertie Ahern sér vonir um að það væri hægt, og því er gert ráð fyrir frekari viðræðum þegar í næstu viku.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×