Erlent

Ólgunni linnir ekki í Írak

Blóðsúthellingarnar halda áfram í Írak. Undanfarinn sólarhring hafa um hundrað manns fallið í bardögum og hryðjuverkaárásum. Í skýrslu Bandaríkjastjórnar, sem hulunni hefur verið svipt af, er varað við hættunni á borgarastríði og dregið í efa að lýðræði í Írak sé raunhæft á næstunni.  Í morgun var gerð sjálfsmorðsárás í Haifa-götu, þar sem átök hafa verið algeng. Þar hafði lögreglubílum verið komið fyrir til að stöðva umferð. Bíl var ekið upp að eftirlitsstöðinni og bifreiðin sprengd í loft upp með þeim afleiðingum, að þrettán fórust, flestir þeirra lögreglumenn. Tuttugu særðust. Talsmaður heilbrigðisráðuneytisins í Bagdad segir ástæðu til að óttast að talan muni hækka, þar sem sprengjan hafi verið mjög öflug. Írakskir lögreglumenn eru ofarlega á lista hryðjuverkamanna í Írak, sem segja að lögreglumennirnir séu landráðamenn. Í gær létust um sextíu manns í árásum í borginni Fallujah á hóp sem tilheyrir öfgasinnanum Abu Musab al-Zarqawi, leiðtoga al-Qaeda í Írak. Hermt er að sextán hinna föllnu hafi verið óbreyttir borgarar. Hryna árása hefur nú staðið í Írak í um tíu daga og mannfall verið gríðarlegt. Talsmenn Varnarmálaráðuneytisins í Washington viðurkenna þetta, og að umfang uppreisnarinnar í Írak virðist fara vaxandi. Mannfall er jafnframt meira en nokkru sinni síðan stríðsátökum lauk formlega í Írak. Skýrsla þjóðarupplýsingaráðs Bandaríkjanna, sem afhent var ráðamönnum í Hvíta húsinu í júlí en hulunni hefur nú verið svipt af, varar einmitt við þessu ástandi. Þar segir að í besta falli megi gera ráð fyrir viðkvæmum stöðugleika, og í versta falli séu líkur á borgarastyrjöld. Jafnframt koma þar fram verulegar efasemdir um að hægt verði að koma á slíkum stöðugleika á næsta ári, að unnt verði að halda frjálsar kosningar. Bent er á að nútímasaga Íraks einkennist af ofbeldi og nánast engri reynslu af fulltrúalýðræði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×