Erlent

Uppskerubrestur í Afganistan

Uppskerubrestur blasir við í Afganistan. Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna telur að milljónir Afgana þurfi á aðstoð að halda á næstu mánuðum ef ekki á illa að fara. Miklir þurrkar hafa verið í vestur- og suðurhluta landsins og í norðurhlutanum hefur uppskeran einnig verið rýr. Á sumum svæðum hefur uppskeran algjörlega brugðist og segja starfsmenn hjálparstofnana að uppskeran geti orðið hin minnsta í sögu landsins ef ástandið lagist ekki. Hugsanlegt er að allt að sex milljónir Afgana þurfi að fá mat og aðra aðstoð utan frá. Ekki bætir úr skák að verð á hveiti hefur hækkað um 30 prósent á árinu en mjög takmarkaðar birgðir af því eru til í landinu. Fátækasta fólkið hefur því ekki efni á mat. Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur þegar farið fram á rúmlega fimm milljarða króna aðstoð til þess að sjá þeim verst settu fyrir matvælum og heilbrigðisaðstoð frá september til febrúar. Talsmenn stofnunarinnar segja að þó að þeir peningar fáist sé ekki einu sinni víst að það dugi til.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×