Erlent

Búist við miklu tjóni á Kúbu

Fellibylurinn Ívan hefur valdið nálægt sextíu manns fjörtjóni. Mest varð mannfallið á eyjunni Grenada. Þar fórust 34. Á Jamaíka fórust ellefu auk nokkurra sem féllu í átökum milli lögreglu og vopnaðra ræningja. Ívan var á laugardag skilgreindur sem fimmta stigs fellibylur. Það er alvarlegasti flokkur fellibylja en vindhraði fór í 73 metra á sekúndu í verstu hviðunum. Kúbverjar undirbjuggu sig um helgina af kappi fyrir hugsanlegri komu Ívans en óttast er að fellibylurinn geti valdið miklu tjóni þar. Eyjarskeggjar gátu þó hughreyst sig við það í gær að svo virtist sem verulega hefði dregið úr mætti fellibylsins. Mestum skaða olli Ívan á eyjunni Grenanda. Óttast var að mikið tjón yrði á Jamaíka en fellibylurinn fór aldrei inn á landið eins og óttast var. Þar var hins vegar nokkuð um róstur þar sem glæpamenn höfðu hugsað sér gott til glóðarinnar og ætluðu að nýta sér færið til gripdeilda á meðan íbúar og yfirvöld færu í skjól vegna veðurofsans. Þar féllu tveir ræningjar og fjórir lögreglumenn særðust í vopnuðum átökum. Á Jamaíka höfðu yfirvöld fyrirskipað hálfri milljón manna að yfirgefa heimili sín en einungis fimm þúsund urðu við þeim tilmælum. Eyjarskeggjar telja því að þar hafi farið mun betur en á horfðist og þakkaði forsætisráðherra landsins almættinu fyrir að stormurinn hafi stöðvast við strendur landsins. Milljónir manna eiga á hættu að verða fyrir tjóni af völdum fellibylsins þar sem hann færist yfir Kúbu og líklega í áttina að Flórída í kjölfarið. Talið er að nær hálf milljón manna þurfi að flýja heimili sín og leita skjóls á Kúbu en of snemmt er að spá fyrir um áhrif fellibylsins í Bandaríkjunum nái hann landi þar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×