Viðskipti innlent

Verðbólga minnkar

Verðbólgan virðist fara minnkandi. Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,43 prósent milli ágúst og september. Þetta er heldur minni hækkun en greiningardeildir bankanna gerðu ráð fyrir. Á ársgrundvelli er verðbólgan 3,4 prósent og hefur lækkað úr 3,7 prósentum í júlí. Hækkun vísitölu neysluverðs í september er rakin til þess að haustútsölum er lokið með tilheyrandi hækkun á verðlagi á fatnaði. Að mati greiningardeildar Íslandsbanka er hækkunin þó minni milli mánaða en gert var ráð fyrir. Ástæða þessa er sögð sú að húsnæðisverð hafi hækkað hægar en spár gerðu ráð fyrir. Að sögn Arnórs Sighvatssonar, aðalhagfræðings Seðlabankans, er vísitöluhækkunin minni en gert var ráð fyrir. "Þetta eru ekki slæm tíðindi," segir hann. Hann segir þó of snemmt að segja til um hvaða áhrif þessi mæling komi til með að hafa á vaxtastigsákvarðanir Seðlabankans. "Við ákveðum ekki vexti út frá eins mánaðar verðbólgutölum," segir hann. Arnór segir að enn eigi eftir að meta hvað liggi á bak við vísitölubreytinguna en hugsanlega hafi þar áhrif að tímasetningar á útsölum séu að breytast.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×