Innlent

Sprengjuleit á Reykjanesi

Sprengjusérfræðingar frá fimm löndum hafa leitað að sprengjum á Keflavíkurflugvelli og í höfnum á Reykjanesi síðustu daga, í tengslum við æfinguna Northern Challenge. Yfir 130 sviðsett viðfangsefni hafa verið lögð fyrir sérfræðingana sem flestir vinna á átakasvæðum í Írak og Afganistan. Auk sprengjusveitar Landhelgisgæslunnar taka sjö erlendar sprengjueyðingarsveitir þátt í æfingunni frá Danmörku, Noregi, Bretlandi og Bandaríkjunum. Í dag var viðfangsefnið að leita að sprengjum sem komið hafði verið fyrir í varðskipinu Tý og gera þær óvirkar. Vélmenni kannaði kjöl skipsins og kafarar leituðu. Allar sveitirnar hafa sprengjueyðingu að aðalstarfi og hafa flestar þeirra starfað á átakasvæðum, meðal annars í Írak, Afganistan, á Balkanskaga og á Norður Írlandi auk þess að sjá um viðbrögð við hryðjuverkum í sínu heimalandi. Gylfi Geirsson, yfirmaður sprengjudeildar Landhelgisgæslunnar, segir allar æfingarnar byggðar á aðstæðum sem vitað er til að hafi komið upp einhvers staðar í heiminum. Í raun sé verið að líkja eftir aðstæðum í Írak, Afganistan og Súdan. Við æfingarnar hefur verið notast við dæmigerða hluti sem finnast á átakasvæðum í Írak og Afganistan, eins og mortara og jarðsprengjur. Sigurður Ásgrímsson, sprengjusérfræðingur, segir að slíkar sprengjur liggi eins og hráviði út um allt í heiminum. Þær séu því í raun tilbúnar fyrir hryðjuverkamenn að nota í árásum sínum. Það þarf þó ekki að fara til Írak til að rekast á slík skaðræðistól á víðavangi, það nægir að fara upp á Vogaheiði á Suðurnesjum á gömul æfingasvæði varnarliðsins. En það er sama hvar sprengjusérfræðingar eru að störfum, ítrustu varkárni er ætíð gætt. Vélmenni eru notuð til að hreyfa við grunsamlegum hlutum og varnarbúningarnir sem mennirnir klæðast við vinnu sína vega um 40 kíló. Óhætt er að segja að þessir menn hafa valið sér afar sérstakan starfsvettvang. Jónas Þorvaldsson, sem meðal annars hefur starfað við sprengjuleit og eyðingu í Írak er einn þeirra. Hann segir að þetta sé eins og hver önnur vinna, ef farið sé eftir því sem mannig er kennt, sé maður nokkuð öruggur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×