Skoðun

Þjóðarbúskapurinn

Þjóðarbúskapurinn - Katrín Ólafsdóttir Nýlega unnu Íslendingar sigur á Slóvenum í handbolta í Aþenu. Ekki hvarflaði að okkur annað en við gætum sigrað Slóveníu; spurningin var bara hvort það tækist í þetta sinn. Ekki leiddum við hugann að því að þarna væri um að ræða mun fjölmennari þjóð. Bandarískur gestaprófessor við Háskólann í Reykjavík var nýlega að velta fyrir sér því sem væri líkt og ólíkt með Íslandi og Bandaríkjunum. Hann nefndi meðal annars að fólksfjöldi á Íslandi væri einn þúsundasti af fólksfjölda Bandaríkjanna. Á hinn bóginn væri landsframleiðsla á mann mjög svipuð í löndunum tveimur eða um 30 þúsund dalir á Íslandi samanborið við ríflega 36 þúsund dali í Bandaríkjunum í fyrra. Íslendingar sjá almennt ekki smæð þjóðarinnar sem vandamál. Ýmis fyrirtæki hafa á síðustu misserum sótt mjög á á alþjóðamarkaði. Það hvarflar ekki að okkur að þangað ættum við ef til vill ekki erindi. Stórhugann má meðal annars sjá í útrás bankanna og Baugsmanna. Minnimáttarkennd vegna smæðar hefur sjaldan háð Íslendingum. Fjöldi íbúa í Slóveníu er 2 milljónir. Slóvenía var hluti af gömlu Júgóslavíu áður en hún hlaut sjálfstæði árið 1991. Um er að ræða vestasta hluta gömlu Júgóslavíu sem ávallt hefur haft mikil viðskipti við nágrannaríkin, Austurríki og Ítalíu. Íbúar Slóveníu eru framsýnir og sem dæmi má nefna þá var stofnaður viðskiptaháskóli þar á árinu 1986, nokkru áður en járntjaldið féll. Efnahagsástandið í Slóveníu er nú tiltölulega gott. Hagvöxtur nam 2,3% á síðasta ári. Landsframleiðsla á mann er reyndar töluvert minni en á Íslandi og í Bandaríkjunum, eða ríflega 18 þúsund dalir á mann. Þetta er aftur á móti hærri landsframleiðsla á mann en í flestum öðrum ríkjum Austur-Evrópu. Atvinnuleysi er 6,7%. Á þessu ári er spáð 3,6% hagvexti í Slóveníu miðað við 4,3% á Íslandi. Þá gekk Slóvenía í Evrópusambandið fyrr á þessu ári. Ég fór til Slóveníu fyrr í sumar og naut þar gestrisni innfæddra, auk þess að njóta hinnar gífurlega fallegu náttúru landsins. Ég sá framsýna menntaða þjóð í fallegu landi þar sem möguleikarnir væru óþrjótandi. Frá Slóvenum heyrðist hins vegar oftar en ekki: Já, en við erum svo smá þjóð. Ég velti því fyrir mér hvort það væri stórhugur Íslendinga sem hefði umfram annað fleytt okkur svo langt í efnahagsmálum. Ætli við gætum gert þetta viðhorf að útflutningsvöru?




Skoðun

Sjá meira


×