Skoðun

Helmingi hærra matvælaverð

Þjóðarbúskapurinn - Katrín Ólafsdóttir Oft er talað um dýrtíðina hér á landi og nýlega birti Hagstofan könnun sem styður þetta álit. Í þessari rannsókn er borið saman verðlag á mat, drykkjarvörum, áfengi og tóbaki í flestum Evrópuríkjum. Í ljós kemur að verð á matvörum hérlendis er ekki hæst, en mjög nálægt því. Hér á landi er verðlag á matvörum 47% hærra en að meðaltali í þeim 15 ríkjum Evrópusambandsins sem þar voru fyrir síðustu stækkun (ESB-15). Sama verðlag er í Noregi og hér á landi, en hæst er verðlag á matvörum í Sviss. Lægsta verðlagið er að finna í ríkjum Austur-Evrópu. Alþjóðlegur samanburður er alltaf erfiður og í rannsókn sem þessari gefur það ekki rétta mynd að nota gengi einstakra gjaldmiðla. Þess í stað eru notuð jafnvirðisgildi þar sem tekið er tillit til mismunandi verðlags í ríkjunum. Þannig fæst raunsærri mynd af verðlagi hvers lands og hægt er að bera saman niðurstöður mismunandi ríkja. Í rannsókninni kemur fram að verð á brauði og kornvörum er hæst hér á landi, eða 67% hærra en að meðaltali í gömlu ESB-ríkjunum 15. Þótt grænmetisverð hafi lækkað við tollabreytinguna um árið, þá eigum við metið í verði á grænmeti, þar sem það er líka 67% hærra en í ríkjum ESB. Eitt metið enn eigum við þegar kemur að verði á mjólk, ostum og eggjum sem einnig er hæst hér á landi. Verðið er 46% hærra en meðaltalið. Þá eru sætindin einnig dýrust á Íslandi eða 61% dýrari en í ríkjum ESB. Við erum einnig nálægt toppnum þegar kemur að ávöxtunum, en ávaxtaverð er heldur hærra í Noregi, Lúxemborg, Írlandi og Danmörku. Fyrirfram hefði maður ef til vill búist við að við værum samkeppnishæfari þegar kemur að fiskverði. Þar erum við reyndar ekki hæst, en engu að síður er fiskverð hér á landi 21% hærra en að meðaltali í ríkjum ESB. Fiskverð er einungis hærra í Noregi og í Sviss. Ekki kemur á óvart að verð á áfengi er hér heldur hærra en í nágrannaríkjunum. Í mælingunni kemur fram að áfengisverð hér á landi er 111% hærra en að meðaltali í ESB-ríkjunum. Aðeins Norðmenn þurfa að greiða hærra verð fyrir áfengi en Íslendingar. Tóbak er hér aftur á móti aðeins 63% hærra en í ríkjum ESB. Bretar, Írar og auðvitað Norðmenn þurfa að borga meira fyrir tóbakið. Það er því engin þjóðsaga að matvælaverð hér á landi sé mun hærra en í nágrannaríkjum okkar. Ástæðurnar eru eflaust margar, lítil samkeppni á matvörumarkaði, lítill markaður langt frá öðrum mörkuðum, tollar og aðrar álögur, en öruggt má telja að sóknarfæri er að finna og ávinningurinn yrði gífurlegur ef tækist að lækka matvælaverð hér á landi.



Skoðun

Sjá meira


×