Skoðun

Heimsveldið og vinir þess

Frá Straumnesfjalli í Hvíta húsið - Erling Ólafsson Sumarið er tími til að gleyma. Ég fór ásamt fríðum hópi í göngu um óbyggðir Hornstranda í júlímánuði. Við þræddum víkur, fjöll og heiðar. Leið okkar lá um Fljótavík, Kögur, Beylu, Tungudalsheiði, Látra, Stakkadal, Rekavík bak Látur, Straumnesfjall, Hesteyri og Sléttu. Fyrir mörgum eru þessi örnefni bara stafir á pappír, en fyrir æ fleiri, ekki bara Íslendingum, eru þau fjörefni sem gefa lífinu gildi að lifa því. Þetta eru slóðir sem verða æ verðmætari með hverju árinu sem líður. Bæði með tilliti til fjármuna og andlegra verðmæta. Við fórum upp á Straumnesfjall upp úr Rekavík á Látrum. Tilgangur okkar var að berja augum rústir herstöðvar Bandaríkjahers sem byggð var þarna á sjötta áratugnum. Samkvæmt korti Landmælinga Íslands átti að vera slóði þarna upp. Svo reyndist ekki vera svo við héldum áfram göngu okkar upp í þoku og vindi, þótt sól og blíðviðri væri niðri í Rekavík. En brátt var ekki um villst að við værum á réttri leið. Fyrst einstaka spýtur, síðan spýtnabrak svo rafmagnskapall og upphlaðinn stokkur, líklega vatnsleiðsla, sem endanlega sannfærði okkur um að við værum brátt á leiðarenda þrátt fyrir 15 - 20 metra skyggni. Risastórar húsarústir blöstu brátt við okkur, draugaþústir í þoku og hvassviðri. Ótrúlegt var að nokkur hefði getað dvalið hér um hávetur, en hér voru 70 manns staðsettir. Heimkominn, feginn hvíldinni frá fjölmiðlum, er ég brátt kominn inn í Hvíta húsið og þar blasa við kunnugleg andlit, Georg Bush forseti Bandaríkja Norður-Ameríku og okkar eigin Davíð Oddsson forsætisráðherra þreyttur á vanþakklæti landans og feginn að vera þar sem hann er metinn að verðleikum. Ekki er heldur amalegt að vera með sjálfan Hannes Hólmstein Gissurarson sem fylgdarmann til að túlka ummæli og vilja stórveldisfurstans. Jafnvel til að skrifa góða ræðu með réttum tilvitnunum. Maður sér á þessum blaðamannafundi að þarna eru á ferðinni nánir vinir og bandamenn. Frá því þeir hittust á fyrsta NATO - fundi forsetans hefur verið djúp vinátta milli þeirra og Ísland hefur alltaf verið stöðugur og mikilvægur vinur. Forsetinn að sögn Davíðs (um leiðtogafundinn í Istanbul) "hefur breytt andrúmsloftinu innan Nato til hins betra. Fortíðin er að baki, fólk er sameinað fyrir framtíðina"! Já svo mörg voru þau orð. "Ekki nóg með það heldur skilja allir þegar hann talar". Jú, það er gott að eiga vini sem skilja mann. Og í lok fundarins, forsetinn eyðir ekki tíma sínum í óþarfa, fundurinn tekur 7 mínútur, spyr hann hvort einhver annar þurfi að spyrja að einhverju. Þá kemur Davíð með yfirlýsingu, það má ekki vera neinn vafi á því að þeir eru skoðanabræður í flestu. "Jæja, ég bara -- Ég verð að segja að ég er sammála forsetanum um Írak. Framtíð Íraks er -- framtíð heimsins er langtum betri vegna gjörða Bandaríkjanna, Bretlands og bandamanna þeirra. Og ef það hefði ekki verið gert hefði ástandið í þeim heimshluta verið langtum hættulegra en það er nú. Það er von núna. Það var engin von áður." Svo hljóðar sú trúarjátning. Heimsveldið og leiðtogar þess verða að hafa áhangendur. Gleymum ekki að þeir eru margir. Svo hefur það verið á öllum tímum. Rómarveldi, Spánn, Breska heimsveldið, Sovétríkin. En gleymum því ekki að það getur verið erfitt að vera vinur. Vinirnir þurfa oft að þrífa upp eftir heimsveldin. Reikningurinn kemur á eftir. Einn vinurinn, Tony Blair, þurfti að nota orðalag Margaret Thatchers á þingi nú í vikunni. "Fögnum yfir Írak", sagði hann. "Fögnum" Það er mörgu að fagna: Dauði rúmlega 900 bandarískra hermanna, 60 breskra hermanna, 6000 írakskra hermanna, 13000 írakskra borgara, 120 verktaka, 124 billjóna dollara kostnaður (10.000 billjónir íslenskra króna). Ómetanleg eyðilegging umhverfis og menningarverðmæta. Þetta er samt bara byrjunin. Þess vegna þurfa Bandaríkjamenn að fá fleiri vini til að hreinsa eftir sig. Við sjáum lítið dæmi um það upp á Straumnesfjalli, þar sem enn er eftir að hreinsa ummerki hernaðarmannvirkja, rusl og drasl á stóru svæði. Þetta er ekki eini staðurinn hér á landi. Og það á eftir að verða meiri umræða þegar bandaríski herinn hverfur héðan með flugsveitir sínar. Það getur verið ansi dýrt að vera vinur. Við eigum að velja okkur vini og bandamenn af meiri kostgæfni.



Skoðun

Sjá meira


×