Viðskipti innlent

Athugasemd frá Íbúðalánasjóði

Íbúðalánasjóður vill koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri vegna ummæla Guðjóns Rúnarssonar, framkvæmdastjóri Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja á fjölmiðlavefnum visir.is mánudaginn 26. júlí. Guðjón Rúnarsson framkvæmdastjóri SBV reynir á fjölmiðlavefnum visir.is þann 26. júlí að klóra sig út úr athugasemdum sem hann sendi Íbúðalánasjóði þann 14. júlí og Íbúðalánasjóður hefur sýnt fram á að hafi verið unnar "með afar ófaglegum og illa undirbúnum hætti" svo notað sé orðalag Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja. Guðjón heldur því fram að Íbúðalánasjóður misskilji kjarnann í athugasemdum SBV og segir: "...Kjarni málsins sem við bendum á í bréfi er sá að sökum ófaglegra vinnubragða og ónægrar kynningar báru margir smæirr fjárfestar skarðan hlut frá borði. Þar er fyrst og fremst um að ræða fjölda einstaklinga í landinu sem á húsbréf en missti af þessu þriggja daga tímabili sem hann hafði til skiptanna." Í ljósi þessarar ummæla framkvæmdastjóra SBV telur Íbúðalánasjóður rétt að birta ásakanir framkvæmdastjóra SBV í bréfi til ÍLS, en um þetta atriði segir orðrétt í bréfi SBV: "Fyrir það fyrsta var sá frestur sem markaðsaðilum var gefinn til að undirbúa skiptin allt of skammur, auk þess sem skiptin voru dagsett á mjög óheppilegum tíma þegar hálfsársuppgjör markaðsaðila fara fram og á hásumarleyfistíma. Einnig mátti Sjóðnum vera ljóst hve mikið var enn órafvætt af útgefnum flokkum, sem kalla á gríðalega aukna vinnu við skiptin." Í athugasemd Íbúðalánasjóðs segir að ekkert sé minnst á almenning í þessari athugasemd, heldur vísað til markaðsaðila sem þurfa að vinna hálfsársupgjör. Þá segir að allir fjárfestar stórir og smáir hafi mátt vita að skiptin færu fram fyrir 1. júlí 2004. Sú vitneskja hefði átt að liggja fyrir frá 31. desember 2003 eins og Íbúðalanasjóður hefur bent á. Loks segir í athugasemd Íbúðalánasjóðs; "Vinnubrögð Íbúðalánasjóðs voru fagleg og kynning veruleg eins sjóðurin hefur sýnt fram á í svarbréfi sínu til SBV. Þá má geta þess að einungis 6% húsbréfa í þeim flokkum sem boðið var til skipta hafði ekki verið rafvæddur fyrir skiptin svo staðhæfing um að mikið hafi verið órafvætt er staðlaus með öllu eins og flest þau atriði sem SBV kvartaði um í bréfi sínu."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×