Sport

Armstrong vann í 6. sinn

Bandaríkjamaðurinn Lance Armstrong skráði nafn sitt í sögubækurnar svo um munar í dag þegar hann vann Frakklandshjólreiðarnar, Tour de France, í sjötta sinn en það hefur enginn afrekað áður. Tuttugasti og síðasti áfangi keppninnar fór fram í dag þegar hjóluð var 163 kílómetra leið frá Montereau til Parísar. Þjóðverjinn Andreas Kloeden varð annar í keppninni, 6 mínútum og 38 sekúndum á eftir Armstrong. Þriðji varð svo Ivan Basso frá Ítalíu, rúmum tuttugu sekúndum á eftir Kloeden. Áfanga dagsins vann hins vegar Belginn Tom Boonen. Texasbúinn Armstrong, sem greindist með krabbamein í eistum árið 1996 og var þá sagt að helmingslíkur væru á því að meinið drægi hann til dauða, hefur nú unnið Tour de France sex ár í röð, fyrsta sinni árið 1999. Fjórir hjólreiðakappar hafa unnið Tour de France fimm sinnum frá því keppnin var fyrst haldin árið 1903: Eddy Merckx, Miguel Indurian, Jacques Anquetil og Bernard Hinault.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×