Skoðun

Fjölmiðlar og einræði

Fjölmiðlamálið - Sigursteinn Másson, formaður Vinstri grænna í Kópavogi Spurningin hvort Íslendíngar búi í virku lýðræðissamfélagi hefur sennilega sjaldan verið áleitnari en nú. En ef við búum ekki við lýðræði lútum við þá einræðisfyrirkomulagi? Einkareknir ljósvakamiðlar höfðu ekki slitið barnsskónum á Íslandi og blöð voru í flokksfjötrum þegar þjóðir Austur Evrópu risu upp gegn kúgurum sínum. Stöð 2 tók á loft en greip í tómt þegar þeir Reagan og Gorbatsjof lentu í Höfða. Hljóðlausir lutu þeir höfði. Það er ekki Reagan að þakka að kommúnistastjórnir hrundu eins og spilaborgir um álfuna eins og fullyrt var margsinnis við útför Reagans sem einna helst minnti á útför Stalíns eða Maó á sínum tíma. Hann hafði ekkert með það að gera. Þetta hafði að gera með stund og stemningu. Hugmyndafræðilegt og efnahagslegt gjaldþrot stefnunnar sem þróaðist frá því að vera falleg hugmynd um jafnrétti og bræðralag til þess að verða fasískt stjórnvald. Fólkið tók sjálft í taumana. Ég átti því láni að fagna að starfa sem fréttamaður á fyrstu einkareknu fréttastofunni, Bylgjunni, sem þá var til húsa í gamla Mjólkursamsöluhúsinu við Snorrabraut. Mér er sérstaklega minnistæð atburðarásin síðla árs 1989 þegar ég var einn á fréttavakt og Rúmenar höfðu risið upp gegn forseta sínum Nicolai Caucescu. Þetta var laugardagur í desembermánuði. Flestir Íslendingar stóðu á kafi í jólainnkaupum og höfðu lítinn tíma fyrir fréttir frá Austur Evrópu. Atburðarásin var hröð. Um morguninn var Caucescu enn í hinni gríðarlegu forsetahöll sem hann lét reisa sér til dýrðar í Búkarest. Það kraumaði allt undir. Fólkið var búið að fá nóg og miklu meira en það. Nokkru fyrr hafði einræðisherrann ætlað að slá á allt tal um óvinsældir þegar lýðnum var smalað neðan við svalir hans en þegar hann bjóst við að vera hylltur hóf mannfjöldinn að púa á hann. Það er ógleymanlegt andartak þegar þessi veruleikafirrti leiðtogi sem var þess alveg viss að þjóðin fylgdi sér og allt tal um annað væri vitleysishjal, áttar sig á því að partíið er á enda og hortugheitin og sjálfumgleðin lekur af andliti hans eins og bráðið smjör. Nýtt Reuter skeyti berst inn á gólf til mín. Ég hleyp með það inn í hljóðstofu og þýði um leið og les að rétt í þessu hafi þyrla lent á forsetahöllinni og Caucescu og eiginkona hans hafi þar flúið en barist sé víða í höfuðborginni þar sem hinar illræmdu örryggissveitir forsetans -- Securitate -- haldi uppi árásum á uppreisnarmenn. Caucescu var framan af talinn til fyrirmyndar í hópi leiðtoga Austur Evrópu og því var það mörgum verulegt áfall þegar í ljós kom að hann hafði kúgað þjóð sína og verið sérstaklega harður í horn að taka gagnvart þeim sem hann taldi pólitíska andstæðinga sína. Örlög hans voru grimmileg, sennilega í takt við það sem til var sáð. Hann og eiginkona hans voru tekin af lífi án dóms og laga í rúmenskri sveit. Fjölmiðlar gegndu mjög mikilvægu hlutverki í þeim byltingum sem fóru eins og eldur í sinu um austanverða Evrópu enda lögðu harðstjórnirnar ætíð mikla áherslu á að halda þeim undir járnhæl sínum. Fyrir alla einræðisherra er það forgangsmál að haga málum þannig að fjölmiðlar séu valdatæki í þágu ríkjandi afla. Ný dögun varð í íslenskri fjölmiðlun um leið og almenningur fyrir austan tjald krafðist lýðræðis. Nú er svo komið á Íslandi að sá sem öllu vill ráða hefur ekki áhuga á að virða stjórnarskrána. Hann telur að álit þeirra sem hingað til hafa verið taldir til fróðustu lögspekinga sé vitleysa. "Þetta virðist frekar vera eitthvert trúaratriði en lögfræði...," segir Davíð við Morgunblaðið. Fyrir alla þá sem eru orðnir sex ára er 26. grein stjórnarskrárinnar skýr. Forsetinn hefur synjað lagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar undirritunar og þá ber að kjósa um það í þjóðaratkvæðagreiðslu svo fljótt sem auðið er. Það að draga upp úr hatti nýtt fjölmiðlafrumvarp og hætta við þjóðaratkvæðagreiðsluna um það fyrra er auðvitað gróf valdníðsla. Stjórnarandstaðan getur ekki og á ekki að taka nokkurn þátt í umræðu um nýja frumvarpið enda er því aðeins ætlað að koma í veg fyrir stjórnarskrárbundinn rétt þjóðar og forseta. Margt hefur verið sagt. Fyrir nokkrum dögum kom ekki annað til greina hjá fylgismönnum Davíðs og reyndar honum sjálfum einnig, en að virða stjórnarskrána og halda kosningar. Fyrir nokkrum vikum sagði Davíð að þetta fjölmiðlamál væri nú bara smámál og uppistandið fáránlegt. Engu að síður er hann tilbúinn að ganga jafn langt og raun ber vitni í þeim eina tilgangi að því er virðist, að sýna vald sitt. Davíð talar niður til rúmlega 1000 mótmælenda á Austurvelli og Lækjartorgi. Hann segir sérfræðing í stjórnskipunarrétti fara með vitleysu og vegur að starfsheiðri hans. Hann hefur heldur ekki vílað fyrir sér að gera það gagnvart fjölmiðlafólki á undanförnum mánuðum en margur heldur mig sig. Davíð hefur hjá sér hirð örfárra manna -- sennilega fimm -- sem hafa áratugum saman tilbeðið Davíð sem hálfguð væri. Þessir menn eru álíka veruleikafirrtir og hann er nú orðinn og sitja þeir því löðursveittir við að finna leiðir til að koma höggi á forsetann sem nú er óvinur númer eitt. Meiri óvinur en Jón Ásgeir. "Annaðhvort ertu með mér eða á móti," segir hinn heittelskaði George Bush sem Davíð i nafni íslensku þjóðarinnar þakkaði fyrir að hafa skapað öruggari heim með innrásinni í Írak -- og meðan ég man, þegar Davíð ákvað að setja Ísland á lista innrrásarþjóðanna var það fremur ólýðræðisleg afgreiðsla. Ekki einn skitinn fundur í utanríkismálanefnd, hvað þá opinber umræða í samfélaginu. En svona er þetta orðið og af hverju hef ég ekki nefnt Halldór Ásgrímsson. Hann skiptir einfaldlega ekki máli nema sem svipa Davíðs á þinglið sitt. Ætli Davíð þurfi að yfirgefa stjórnarráðið í þyrlu?



Skoðun

Sjá meira


×