Skoðun

Frá degi til dags

Trúverðugleiki Ekki er ósennilegt að einhverjum finnist trúverðugleiki Ríkisendurskoðunar og forstöðumanns stofnunarinnar, Sigurðar Þórðarsonar, hafa beðið hnekki eftir að upplýst var í fréttum Stöðvar tvö í fyrrakvöld að Ríkisendurskoðun hefði á síðasta ári farið rúmlega fjörutíu milljónir króna fram úr fjárlögum. Á sama tíma gagnrýndi stofnunin önnur opinber embætti fyrir agaleysi í fjármálum. Athyglisvert er að ein skýringin á þessu hátterni Ríkisendurskoðunar eru breytingar á húsnæði embættisins. Þær "kostuðu meira en áætlað var" eins og það er orðað. Hljómar ansi kunnuglega - en Ríkisendurskoðun hefur verið í fararbroddi að gagnrýna þær stofnanir ríkisins sem ekki hafa haldið sig innan áætlana og sérstaklega beint spjótunum að umframeyðslu við endurbætur og nýbyggingar. Í endurnýjun lífdaga Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, var í sviðsljósinu á mánudaginn þegar andstæðingar Kárahnjúkavirkjunar minntust þess að tvö ár eru liðin frá því að undirrituð var viljayfirlýsing um byggingu álvers í Reyðarfirði. Hvað sem mönnum finnst um virkjanir og álver er það útbreidd skoðun að Friðrik hafi staðið sig vel í forstjórastarfinu hjá Landsvirkjun, verið röskur, framtakssamur og nútímalegur í vinnubrögðum. Hann sé dæmi um að líf geti verið eftir pólitíkina, en Friðrik á að baki langan feril sem alþingismaður og ráðherra og var um árabil varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Kannski tekur hann nú flokksformanninn í kennslustund í því hvernig ganga eigi í endurnýjun lífdaga. gm@frettabladid.is



Skoðun

Sjá meira


×